Festa lýðræðis byggist að sumu leyti á góðum venjum, sem mótast smám saman í valdatafli stjórnmálaflokkanna. Stjórnarskrá og lög mæla ekki í smáatriðum fyrir, hvernig valdhafar eiga að haga sér, hve langt þeir megi ganga. Ef hinar óskráðu siðareglur eru brotnar, er kippt steini úr undirstöðu lýðræðisins.
Ríkisstjórnin ætlaði sér að sitja áfram, þótt Alþýðuflokkurinn hefði staðizt mátið og stutt Sjálfstæðisflokkinn og Bjarna Guðnason á leiðarenda í að hindra skattahækkun þá, sem nú hefur verið samþykkt. Ríkisstjórnin hafði lýst því yfir, að hún mundi ekki gera þetta stórmál að fráfararatriði.
En þetta var ásetningur, ekki framkvæmd. Með uppgjöf sinni í málinu forðaði Alþýðuflokkurinn ríkisstjórninni frá því að kippa steini úr undirstöðu lýðræðisins. Þar með hefur ekki skapazt neitt fordæmi, sem hægt er að vitna í, næst þegar stjórnmálamenn freistast til siðleysis.
Önnur jákvæð hlið á setningu laganna um aukna skattheimtu er, að almenningur hefur séð, hve veikur á svellinu Alþýðuflokkurinn er í stjórnarandstöðunni. Komið hefur í ljós, að munurinn á ríkisstjórninni og Alþýðuflokknum er minni en margir ætluðu og að Sjálfstæðisflokkurinn er eina raunhæfa stjórnarandstaðan um þessar mundir.
Þriðja atriðið, sem er til bóta, er breyting beinna skatta í óbeina. Ríkisstjórnin hefur horfið frá skattastefnunni, sem hún markaði, þegar hún tók við völdum, og er komin langleiðina yfir til stefnu viðreisnarstjórnarinnar. Þessi hringsnúningur er þjóðinni í hag, þótt segja megi, að betra hefði verið fyrir stjórnina að fara alla leiðina í samræmi við skattatillögur Sjálfstæðisflokksins.
Ef aðeins væri um þessa kerfisbreytingu að ræða, gætu allir verið sammála hinum nýju lögum. En þau hafa því miður alvarlega skuggahlið, aukna skattheimtu. Eftir síaukna skattheimtu undanfarinna ára úr 20% þjóðarveltunnar í 30% var nú sízt ástæða til að ganga enn lengra.
Þegar skattafrumvarpið var í neðri deild í fyrri umferð, játaði Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra, að unnt væri að skera niður ríkisútgjöld um 5% eða einn og hálfan milljarð eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu lagt til. Hann greiddi atkvæði með þeirri tillögu, ásamt Birni Pálssyni. Þessi niðurskurður var auðvitað skynsamlegri en skattahækkunin.
Það kynduga gerðist svo í síðari umferð, að forsætisráðherra greiddi atkvæði gegn þessari tillögu, sem hann hafði stutt í fyrri umferð. “Það er víst ærið átak að fylgja rödd skynseminnar einu sinni í sama máli”, sagði Gunnar Thoroddsen um þessa athyglisverðu framkomu forsætisráðherra.
Meðferð og afgreiðsla skattafrumvarpsins er vissulega lærdómsrík fyrir kjósendur.
Jónas Kristjánsson
Vísir