Kvígildin draga ekki.

Greinar

Áratugum saman höfum við haft það gott út á sjávarútveginn. Aflinn í sjónum hefur verið nægur og mikill og vaxandi skynvæðing hefur ríkt í útgerð og fiskiðnaði. Hin mikla framleiðni í þessum greinum hefur fært okkur gífurlegar tekjur, sem jafnóðum hefur verið dreift út i þjóðfélagið.

Sjávarútvegur og fiskiðnaður hafa verið notaðir sem dráttardýr. Gengi krónunnar hefur alltaf verið of hátt skráð og peningarnir hafa þannig verið fluttir frá útflutningsgreinunum. Reynt hefur verið að láta rekstur dráttardýranna standa í járnum og gengið verið skráð í samræmi við þá bókfærslu.

Nú stöndum við andspænis þeim voða, að sjórinn er ekki lengur sama gullkistan. Fiskistofnarnir hafa rýrnað óðfluga. Komið hefur i ljós, að við höfum lifað á rányrkju og að við getum það ekki lengur. Dráttardýr þjóðarhags er að bila.

Þetta væri ekki svo alvarlegt vandamál, ef við hefðum notað skynsamlega auðinn úr sjónum. En við höfum flotið sofandi að feigðarósi. Peningarnir hafa ekki verið notaðir til að skapa aðstöðu fyrir innlendan iðnað. Framleiðinn og arðbær iðnaður er byggður upp á löngum tima og við höfum vanrækt þá uppbyggingu. Þess vegna höfum við nú ekkert dráttardýr til að taka við af sjávarútveginum.

Iðnaðurinn hefur verið hornreka í atvinnulífinu. Hann hefur ekki fengið sjálfvirka fjármögnun eins og forréttindagreinarnar. Hann hefur sætt verri lánakjörum. Og hin háa gengisskráning hefur mergsogið hann í svipuðum mæli og sjávarútveginn.

Sjávargróðinn hefur að töluverðu leyti farið í súginn. Stjórnmálamennirnir hafa tekið hann til skiptameðferðar og dreift honum til þrýstihópa, sem ekki hafa getað ávaxtað sitt pund. Hann hefur meðal annars verið notaður til að halda uppi margfalt meiri landbúnaði en þjóðin hefur efni á.

Ráðamennirnir hafa forðazt að segja okkur frá þessu. Hagfræðingar þeirra hafa blekkt okkur. Þeir hafa samið þjóðhagsreikninga, sem fela í sér grófa fölsun. Þessir reikningar sýna ekki framlag einstakra atvinnugreina á alþjóðlegu markaðsverði. Þeir byggja á ímynduðu og tilbúnu islenzku bókhaldsverði, þar sem landbúnaðarafurðir eru helmingi dýrari en þær eru erlendis og þar sem sjávarafurðir eru helmingi ódýrari en þær eru erlendis.

Fyrir bragðið hefur dulizt fyrir þjóðinni, hvaða stefnu hún þyrfti að taka í málefnum atvinnuveganna. Hún hefur talið atvinnuvegina nokkurn veginn jafngilda. Hún hefur flotið sofandi að feigðarósi í þeirri trú, að eitt dráttardýr geti tekið við af öðru. Hún hefur haldið, að kvígildin væru dráttardýr.

Ekki hefur þó allur sjávarauðurinn brunnið upp i landbúnaði, byggðastefnu, óhóflegri samneyzlu og öðru sliku. Þjóðin sem heild hefur notað hann til að auka lifsgæði sín. Hún hefur vanið sig á lifnaðarhætti stóriðjuþjóða. Hún kann ekki að naga skósóla. Þess vegna þarf nú svo um munar að stokka upp spilin, fækka kvígildunum Og einbeita huga og hönd að arðbærum greinum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið