Kúvendingin.

Greinar

Sumir lesendur Dagblaðsins hafa spurt, hvers vegna blaðið hafi snúizt á sveif með “landráðamönnum” í landhelgismálinu, þegar samningar i voru undirritaðir, þótt blaðið hafi frá upphafi barizt gegn samningum. Hvað á þessi kúvending að þýða, spyrja menn.

Allt til hins síðasta var Íslendingum boðið upp á ömöguleg býti. Fyrst var Hattersley með tilboð, sem í rauninni fól í sér aukna sókn Breta á Íslandsmið. Síðan flutti Geir forsætisráðherra tilboð frá Wilson um 80-90.000 tonn án viðurkenningar á 200 mílna landhelginni. Og loks kom norska málamiðlunin á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins um minnkaða brezka sókn á miðin en enga viðurkenningu á hinni nýju landhelgi.

Allan þennan tíma hvöttu Morgunblaðið og Vísir til samninga. Og allan þennan tíma var viss stuðningur við samninga innan ríkisstjórnarinnar og þingflokka hennar. Dagblaðið skipaði sér í hóp þeirra, sem vöruðu við áróðri Morgunblaðsins og Vísis og hvöttu þjóðina til að hleypa ríkisstjórninni ekki út í ótímabæra samninga.

Kúvendingin í málinu varð á Oslóarfundi Einars Ágústssonar og Matthíasar Bjarnasonar með Crosland utanríkisráðherra Breta. Þar féllust Bretar á einhlióa og óskertan ákvörðunarrétt Íslendinga um veiðar innan 200 mílna landhelginnar eftir 1. desember á þessu ári. Þeir gáfust upp í öllum meginatriðum, þótt samið hafi verið um sex mánaða aðlögunartíma.

Þetta höfðu Bretar aldrei áður mátt heyra nefnt. Og það var þetta frávik frá fyrri samningshugmyndum, sem olli því, að Dagblaðið taldi ríkisstjórnina gera rétt í að fallast á samning. Það kemur nefnilega stundum að því, þegar menn eru búnir að þjarka lengi í viðræðum, að mótaðilinn gefur svo verulega mikið eftir, að þér finnist sanngjarnt að koma til móts við hann, svo að deilan verði úr sögunnÍ og málsaðilar skilji sáttir að kalla.

Dagblaðið taldi strax, að möguleikinn á afturkalli bókunar sex hjá Efnahagsbandalaginu væri mikill galli á samningnum. Bretar munu án efa sjá til þess, að tollfríðindi þessarar bókunar verði afnumin eftir l. desember, ef Íslendingar vilja ekki framlengja veiðiheimildir þeirra. Þeir munu ekki hlusta á túlkun Hans G Andersen, þrátt fyrir óskhyggju íslenzku ríkisstjórnarinnar á því sviði.

Því miður ætla íslenzkir útfltltningsatvinnuvegir að grípa bókun sex fegins hendi. Þjóðin veróur því að gæta þess vel, að hinir nýju útflutningshagsmunir magni ekki linkind ríkisstjórnarinnar, þegar aftur verður setzt niður til að ræða framhald á veiðum Breta eftir l. desember. En Dagblaðið taldi þennan galla samningsins ekki nægilega veigamikinn, þegar hann er borinn saman við kostinn, sem felst í viðurkenningunni á einhliða rétti Íslendinga til að ákveða veiðar í 200 mílna landhelginni.

Með þessum samningi hafa andstæðingar fyrri samningshugmynda í rauninni unnið mikinn sigur. Þeir hafa þvælzt fyrir hinum, sem jafnan hafa viljað semja, og látið rás tímans vinna okkur í hag. Þeir egia því að gleðjast yfir árangrinum og ekki einangra sig í stífri andstöðu gegn hvers konar samningi, jafnvel góðum samningi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið