Kunna ekki á gaffal

Punktar

Hver á að kenna börnum að borða með hníf og gaffli, spyr Andrew Brown í Guardian í gær. Skólastjórar í Bretlandi hafa áhyggjur af börnum, sem borða með puttunum í mötuneytum. Skólarnir verða að kenna börnunum að nota hníf og gaffal, því að foreldrarnir hafa brugðizt. Annars gætu önnur börn haft puttaátið eftir þeim ósiðuðu. Í auknum mæli virðist fólk ekki telja sig bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Kannski er bara borðað ruslfæði á sumum bæjum, hamborgarar, franskar, pítsur. Brown fer víða í hugleiðingum sínum. Telur sjónvarpið koma inn hjá fólki óbeit á vinnu og dálæti á happdrættum.