Kraftalæti líðandi stundar.

Greinar

Steingrímur Hermannsson, dómsmálaráðherra Hvals hf., hefur nú haft grænfriðunga í haldi hátt á fimmta sólarhring, án þess að gefin hafi verið út kæra á hendur þeim.

Kraftamönnum á Íslandi finnst sumum hverjum upplagt að kenna afskiptasömum útlendingum hæfilega lexíu, hvað sem borgaralegum réttindum líður. Og Steingrímur á alls kostar við grænfriðunga.

Í alvörulöndum úti í heimi hafa margir áhuga á borgaralegum réttindum. Þeim þykir athyglisvert, að íslenzk stjórnvöld skuli hafa menn í haldi svona lengi án kæru.

Það er einmitt einn hornsteina vestrænna þjóðfélaga og baráttunnar fyrir borgaralegum réttindum, að menn séu ekki teknir fastir, nema vitað sé fyrir hvað og gefin hafi verið út formleg kæra á hendur þeim.

Og hér á landi hefur meira að segja verið reynt að halda mönnum ekki lengur en sólarhring án kæru. Ef til vill telja yfirvöld það ekki varðhald að geyma menn um borð í skipi þeirra!

Íslenzkum yfirvöldum lá meira á, þegar dómsmálaráðuneytið ákvað að flýta sjóprófum yfir grænfriðungum um einn sólarhring, augljóslega til að hindra viðurvist erlendra áhugamanna.

Dómsmálaráðherra Hvals hf. var svo ósvífinn að halda því fram í málgagni sínu í gær, að sjóprófum sé flýtt í þágu grænfriðunga. Þeir báðu þó um sjópróf í dag til að koma ráðgjöfum til landsins í tæka tíð.

Í alvörulöndum úti í heimi hafa margir áhuga á borgaralegum réttindum. Þeim þykir athyglisvert, að íslenzk stjórnvöld skuli vilja halda sjópróf, án þess að ákveðnir útlendingar séu viðstaddir. Sem betur fer varð sjódómurinn að lokum að óskum grænfriðunga.

Það er einmitt einn hornsteina vestrænna þjóðfélaga og baráttunnar fyrir borgaralegum réttindum, að menn, sem teknir eru fastir, hafi möguleika á að halda uppi ýtrustu vörnum.

Og hér á landi hefur jafnan verið tekið tillit til óska sakborninga um fresti. Ef til vill telja yfirvöld það ekki gilda í þessu máli, þar sem grænfriðungar séu ekki enn sakborningar!

Handtaka grænfriðunga á laugardaginn og sá eftirleikur, sem hér hefur verið lýst, sýnir, að íslenzk stjórnvöld hafa misst þolinmæðina. Þau láta kraftalæti koma í stað skynsemi.

Efnisatriði málsins skipta tiltölulega litlu í hvalveiðideilu þessari. Málflutningur grænfriðunga er ekki meira traustvekjandi en málflutningur sjávarútvegsráðuneytis Hvals hf.

Hitt er ljóst, að íslenzk stjórnvöld vanmeta grænfriðunga sem skeggjaða æsingamenn. Staðreyndin er sú, að þessi samtök eru ákaft studd bæði auðugu, áhrifamiklu og greindu fólki.

Um allan hinn vestræna heim eru Íslendingar núna stimplaðir með réttu eða röngu sem gráðugir sérhagsmunamenn, hættulegir sjaldgæfum skepnum; svo gráðugir, að þeir kasti mannréttindum fyrir borð eftir þörfum.

Dagblaðið kvartaði í fyrradag um, að harðlína verndara Hvals hf. í valdakerfinu mundi spilla fyrir okkur í Jan Mayen deilunni. Nú benda einnig líkur til, að hún geti spillt freðfiskmarkaðnum í Bandaríkjunum.

Úr því að Steingrímur Hermannsson þykist vera að gæta hagsmuna Íslands ætti hann að líta út yfir kraftalæti líðandi stundar og hugleiða hið víðara samhengi íslenzkra hagsmuna.

Dómsmálálaráðherra Hvals hf. kann að hafa einhverja nautn af því að lemja á grænfriðungum. En hann gerir það því miður á kostnað íslenzkra hagsmuna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið