Flokkarnir hafa fylkt liði sínu til sveitarstjórnarkosninga og ákveðnir kjósendur eru farnir að gera upp hug sinn. Tæpar fjórar vikur eru til kosninganna og hin eiginlega kosningabarátta er komin í fullan gang.
Sveitarstjórnarkosningar eru allt öðru vísi kosningar en alþingiskosningarnar, sem fylgja í kjölfarið fjórum vikum síðar. Málin eru önnur, mennirnir eru aðrir og barizt er í fleiri og smærri skærum.
Eitt mikilvægasta atriðið, sem kjósendur verða að átta sig á, er, að sveitarstjórnarkosningar eru ekki alþingiskosningar. Þar er ekki verið að dæma um frammistöðu stjórnar og stjórnarandstöðu í landsmálunum.
Sveitarstjórnarkosningar eru ekki réttur vettvangur til að refsa ríkisstjórn eða þakka henni. Uppgjörið í landsmálunum hlýtur og verður að fara fram í alþingiskosningunum.
Engar hreinar línur eru í kosningamálum bæja og kauptúna. Sveitarfélögin eru misjafnlega sett, hafa staðið misjafnlega að málum og hafa við misjöfn vandamál að stríða.
Á einum stað er framkvæmdaval næsta kjörtímabils milli leikskóla og gatnagerðar. Á öðrum stað er annað hvort kostur á félagsheimili eða sundlaug. Og á hinum þriðja deila menn um, hvort nærtækari sé varanleg gatnagerð eða útgerðaraðild.
Í þeim efnum verða kjósendur að vara sig mest á þeim listum og frambjóðendum, sem þykjast ætla að framkvæma öll þau verkefni, sem kjósendur hafa áhuga á. Þar eru á ferðinni lýðskrumarar. sem eru að reyna að blekkja kjósendur.
Vitur kjósandi veit nokkurn veginn, hve mikið sveitarfélag hans getur leyft sér að framkvæma á ári hverju. Hann gerir þær kröfur til frambjóðenda, að þeir lofi ekki of miklu, heldur segi honum, í hvaða röð þeir vilji framkvæma verkefnin.
Hitt er svo líka staðreynd, að sveitarstjórnarmenn nýta peningana misjafnlega vel. Það þurfa kjósendur að hafa í huga um leið og þeir gera sér grein fyrir, hverjir séu líklegastir til að reisa leikskóla, leggja í varanlega gatnagerð eða hvaða það verkefni, sem kjósandinn telur brýnast.
Kjósendur þurfa einnig að reyna að gera sér grein fyrir, hverjir séu möguleikarnir á meirihlutasamstarfi í sveitarstjórnum eftir kosningar. Þetta mat getur orðið erfitt, því að fyrsta regla stjórnmálamanna er að gefa sem minnst upp um slíkt.
Matið er auðveldast á þeim stöðum, þar sem hreinar línur eru milli stjórnar og stjórnarandstöðu, einkum þar sem einn flokkur hefur verið í meirihluta. Þar geta menn fremur en annars staðar metið, hvort meirihlutinn hafi staðið sig vel eða illa og hvort núverandi minnihluti sé líklegur til meiri eða minni verka.
Valið milli þjóðmálastefna er tiltölulega lítið í sveitarstjórnarmálum. Þar eru verkefnin að verulegu leyti ópólitísk. Stjórnmálaflokkarnir eru byggðir upp sem landsmálaflokkar. Í sveitarstjórnarmálum eru línurnar milli þeirra mun óskýrari. Þar eru staðbundin sjónarmið kjósendum efst í huga.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið