Klúbbur grínista.

Greinar

Það er einkar fyndið, að sjötta heimsþing svonefndra hlutlausra ríkja er haldið þessa dagana í Havana á Kúbu, einmitt í því ríki, sem undanfarin ár hefur verið hvað afskiptamest um hernaðarleg mál annarra ríkja.

Kúbustjórn hefur sent herlið til bardaga í nokkrum ríkjum Afríku. Kostnaðinn af þessum grófu afskiptum hafa Sovétríkin borið. Það er því vel við hæfi, að Kúbustjórn leggur mikla áherzlu á, að hlutlausu ríkin eigi heima við hlið Sovétríkjanna.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar, frá því að menn eins og Nehru frá Indlandi, Tító frá Júgóslavíu, Súkarnó frá Indónesíu, Nasser frá Egyptalandi og Nkrumah frá Ghana réðu ferðinni í samtökum hlutlausra ríkja.

Þá var þetta nokkuð fámennur og virðulegur klúbbur þjóðarleiðtoga, sem höfnuðu skiptingu heimsins í bandarískt og sovézkt áhrifasvæði og höfnuðu valdbeitingu í samskiptum ríkja. Í þá daga skildu menn, hvað orðið hlutleysi þýddi.

Af gömlu mönnunum er Tító Júgóslavíuforseti einn eftir. Og óneitanlega virðist hann vera orðinn meira en lítið utangátta í þessum samtökum, sem einu sinni töldu um 20 ríki en telja nú um 80 af 110 ríkjum þriðja heimsins.

Á fundunum í Havana munu fulltrúar Vietnams heimta, að fulltrúar Pol Pot stjórnarinnar í Kampútseu víki fyrir fulltrúum Heng Samrin stjórnarinnar. Hin síðarnefnda er leppstjórn Vietnams, en hin fyrri er leppstjórn Kína.

Þá munu fulltrúar hinna róttækari Arabaríkja leggja mikla áherzlu á, að Egyptalandi verði vikið úr samtökunum vegna friðarsamninga Sadats Egyptalandsforseta við Begin, forsætisráðherra Ísraels.

Þessi dæmi sýna, hve illa er komið fyrir samtökum svonefndra hlutlausra ríkja. Einhver þeirra eiga jafnan í innbyrðis styrjöldum. Nýleg dæmi eru Zaire og Angóla, Eþíópía og Sómalía, Vietnam og Kampútsea, Egyptaland og Líbýa.

Mörg þeirra eru ófeimin við að kalla erlenda heri til aðstoðar. Kúbumenn eru ekki hinir einu, sem gera víðreist til hernaðaríhlutunar. Einnig eru á ferðinni Frakkar, Sovétmenn, Austur-Þjóðverjar og jafnvel Marokkóbúar, til að ráða örlögum ríkja.

Á fundinum mun Afganistan mæla gegn aðild Pakistan að samtökunum vegna skorts á hlutleysi. En í Afganistan sjálfu aðstoðar nú sovézkur her stjórnina við að bæla niður uppreisn. Allt tal um hlutleysi í samtökunum er grín eitt.

Með þessu er ekki sagt, að hávaðarok verði í fundarsölum í Havana. Fulltrúar munu reyna að líta framhjá ágreiningsefnum. Þeir munu ekki greiða atkvæði í neinum viðkvæmum málum. En þeir munu heldur ekki gera neitt af viti. Tíminn mun fara í marklaust þjark um, hverjir megi vera í samtökunum.

Tító gamli hefur þó náð þeim árangri að telja Kúbustjórn ofan af viðleitni hennar til að koma bandalagi við Sovétríkin inn í uppkast að ályktun heimsþingsins. En ekki er víst, að Títós njóti lengi við til að hafa vit fyrir mönnum.

Hinn áhrifamikli gamli klúbbur Nehrus og Títós gegn valdablökkum og valdbeitingu er orðinn að skrípafélagi, sem enginn tekur mark á, ekki einu sinni stjórnir þáttökuríkjanna.

Hinn þriðji heimur hlutlausu ríkjanna er vígvöllur nútímans, þar sem stór veldi og smá, innan blakka og utan, reyna mátt sinn og megin. Engin ríki eru varnarlausari en einmitt hin svonefndu hlutlausu ríki á ráðstefnunni í Havana.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið