Eðlilegt er, að samfélagið dragi loðdýrabændur upp úr feninu. Þeir eru þar ekki nema að litlu leyti fyrir eigin tilverknað. Þeir sukku meira eða minna á ábyrgð embættismanna, stjórnmálamanna og hagsmunagæzlumanna landbúnaðarins, sem öttu þeim á foraðið.
Stofnkostnaður loðdýraævintýrisins nemur nú tveimur milljörðum króna. Árlegar útflutningstekjur greinarinnar eru ekki nema brot af þeirri upphæð, líklega ekki nema tíundi hluti, eins og markaðshorfur eru núna. Dæmið er því algerlega og átakanlega vonlaust.
Bezt er að fyrirgreiðsla skattgreiðenda fyrir hönd kjósenda verði sem mest á þann hátt, að dregin verði saman segl í loðdýraræktinni. Búum verði fækkað og ekki verði rekin önnur en þau, er liggja vel við þeim fóðurstöðvum, sem eru ódýrastar í rekstri.
Vegna byggðasjónarmiða var loðdýrabúum dreift fram um alla dali, þótt nauðsynlegt sé að hafa þau í nágrenni fóðurstöðva, ef nokkur von á að vera, að þau standist alþjóðlega samkeppni. Byggðastefnumenn stjórnmála og stjórnkerfis bera ábyrgð á þessum glæp.
Vegna byggðasjónarmiða voru fóðurstöðvar hins opinbera ekki reistar við hliðina á fiskvinnslustöðvum, þar sem hráefnið er nærtækast. Það hefði verið nauðsynlegt, ef nokkur von hefði átt að vera um, að loðdýraræktin íslenzka stæðist alþjóðlega samkeppni.
Vegna dreifingar loðdýrabúa og fóðurstöðva er kostnaður við fóður og flutninga mun meiri en þarf. Að baki harmleiksins eru pólitískar ákvarðanir, sem eru fremur á ábyrgð kjósenda en loðdýrabænda. Það eru kjósendur, sem hafa gefið eyðsluseggjum lausan tauminn.
Að vísu voru menn varaðir við. Frá upphafi var haldið fram hér í blaðinu og víðar, að þetta yrði ekki ævintýri, heldur martröð. Hið opinbera gæti ekki byggt upp samkeppnishæfa atvinnugrein með handafli ótakmarkaðra sjóða. Greinin yrði að taka út hægan þroska.
Einnig var bent á, að bændum væri ýtt úr tiltölulega öruggu starfi hjá ríkinu, sem kaupir afurðir sauðfjár og nautgripa. Það var verið að taka kúa- og kindakvóta af hálfgerðum embættismönnum og gera þá að ábyrgðarmönnum áhætturekstrar í alþjóðlegri samkeppni.
Fáránlegt er, að unnt sé að taka menn úr vernduðu umhverfi, þar sem ríkið sér fyrir öllu, þar á meðal fyrir ákveðnu verði fyrir afurðirnar, og segja þeim að fara að selja refa- og minkaskinn á uppboði hjá Hudson Bay, þar sem hin hörðu lögmál samkeppninnar ráða ríkjum.
Sorglegt er, að þetta var meðal annars gert til að rýmka um kvóta annarra bænda til að framleiða afurðir sauðfjár og nautgripa, sem ekki er einu sinni unnt að selja á hinum verndaða innanlandsmarkaði. Erfitt verður fyrir loðdýrabændur að endurheimta kvótann.
Skiljanlegt var, að verðandi loðdýrabændur hlustuðu ekki á menn, sem sagðir voru sérvitringar eða jafnvel óvinir bændastéttarinnar. Eðlilegt var, að þeir hlustuðu fremur á hagsmunagæzlumenn sína, stjórnmálamenn og embættismenn ráðuneytis og landbúnaðarstofnana.
Hagsmunagæzlumenn verða ekki dregnir til ábyrgðar, því að þeirra hlutverk er að hafa fé af skattgreiðendum. Embættismenn ráðuneytis og landbúnaðarstofnana verða ekki dregnir til ábyrgðar, því að þeir voru studdir eyðsluglöðum byggðastefnumönnum stjórnmálanna.
Stjórnmálamennirnir, er létu þjóðfélagið borga tvo milljarða í martröðina, hafa verið endurkosnir og verða endurkosnir. Ábyrgð fjárglæfranna hvílir á kjósendum.
Jónas Kristjánsson
DV