“Þjónn! Viljið þér færa aðmírálinn úr stólnum. Hann hefur verið látinn í þrjá daga. Auk þess situr hann á mínu eintaki af Morgunblaðinu.”
Þessa gamansögu úr brezkum karlaklúbbi mætti einnig segja um frægasta karlaklúbbinn á Íslandi, alþingi. Sá klúbbur virðist líkur öðrum slíkum. Íhaldssemin svífur yfir vötnum. Ferskar hugmyndir skjóta ekki rótum og nýjar lausnir fá ekki hljómgrunn.
Sumir nýir þingmenn hafa skoðanir og atorku. Þeir eru frystir, unz þeir sjá að sér og samlagast hinum eldri og reyndari klúbbfélögum, sem hafa fyrir löngu tamið sér þingsiði íhaldssemi og aðgerðaleysis.
Þingmenn kveinka sér stundum undan gagnrýni á störf alþingis. Þeir segja gagnrýnina í verulegum atriðum ósanngjarna og þar á ofan þjóðhættulega, þar sem hún dragi úr virðingu almennings fyrir mikilvægasta hornsteini lýðræðisins.
En hvar er svo virðing þingmanna fyrir starfa sínum? Þeir hrista höfuðið, þegar spilltir ráðherrar hyggjast kaupa húshræ af pólitískum gæðingi á tvöföldu matsverði . Úti í bæ játa þeir ,að kaupin á Víðishúsinu séu forkastanleg. En á þingi gera þeir ekkert í málinu. Þeir hafa enn ekki lagt til. að þessi heimild til 124 milljón króna þjófnaðar af almannafé verði felld úr fjárlagafrumvarpinu.
Enn síður reyna þeir að skera burtu meinsemdirnar, sem Víðishúsið er dæmi um. Þeir neita að sjá spillinguna. sem hvarvetna þrífst umhverfis stjórnmálaflokkana. Þeir neita að taka alvarlega siðferðileg afglöp í fjármálum. Í brezkum karlaklúbbi eru nefnilega aðeins góðir strákar að mati klúbbfélaganna.
Sljóleiki þingmanna kemur árlega fram í hækkun fjárlagafrumvarpa í meðförum þeirra. Þeir eiga ekki til rök gegn ýtarlegum tillögum utan úr bæ um verulegan sparnað ríkisútgjalda, en þeir hlusta bara ekki á þær. Eina lausnin, sem þeir kunna, er að hækka skatta og búa til nýja. Í þetta sinn ætla þeir að hækka skatta um 3700 milljónir umfram venjulegar verðbólguhækkanir.
Þessi hugmyndaskortur þingmanna fer saman við hagsmuni ýmissa þrýstihópa. sem virðast stjórna þeim sem strengbrúðum. Á fjárlögum sker mest í augu ránsfengur þrýstihópanna, sem eykst með hverju árinu og fæst aldrei skorinn niður. Landbúnaðarliðir fjárlaga eru verst ræmda dæmið um þetta.
Aðmírálar alþingis sofa vært, þótt kröfur um aðgerðir komi úr öllum áttum. Dæmi um það eru kröfurnar um jafnari atkvæðisrétt og persónubundnari kosningar. Ungliðasamtök þriggja stjórnmálaflokka hafa náð samkomulagi um tillögur í þessu efni. Samt eru takmarkaðar horfur á, að alþingi taki við sér.
Að vísu eru ekki allir þingmenn jafnsljóir. Í öllum flokkum eru til þingmenn, sem sjá vandamálin og reyna að glíma við þau. En þeir eru í miklum minnihluta og ráða ekki ferðinni. Klúbbmennirnir ráða.
Við skulum samt vona, að enginn þingmaður hvíli látinn í þrjá daga í sæti sínu án þess að neinn taki eftir því.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið