Kærar þakkir.

Greinar

Þau 32.000 eintök, sem unnt var að prenta af Dagblaðinu í gær, hurfu eins og dögg fyrir sólu, jafnóðum og þau voru prentuð. Afgreiðsla Dagblaðsins var í hálfgerðu umsátursástandi meðan á þessu stóð og lögreglan varð að skakka leikinn hjá Óla blaðasala á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis.

Allur þessi eintakafjöldi var seldur. Engar gjafa- eða tilraunaáskriftir voru sendar út. Hætt var við slíkar kynningaraðferðir, þegar nærri 4000 áskrifendur höfðu látið skrifa sig niður, áður en fyrsta tölublaðið var komið út. Þvílíkur áhugi er vafalaust einsdæmi í ljósi þess, að engin vara var þá enn á boðstólum.

Ekki er laust við, að hjartsláttur starfsmanna Dagblaðsins ykist nokkuð síðdegis í gær, bæði af þakklæti út af viðtökunum og af tilfinningunni fyrir því, að þung ábyrgð hlyti að fylgja þessum vinsældum. Þörf almennings fyrir frjálst og óháð dagblað reyndist meiri en nokkurn hafði órað fyrir. Og þá kemur að okkur að standa til langframa undir því trausti.

Viðtökur gærdagsins eru krafa um, að Dagblaðið gerist ekki flokkspólitískur málaliði, né gangi erinda hagsmunasamtaka þeirra, sem tröllríða þjóðinni á flestum sviðum. Viðtökurnar eru ósk um, að Dagblaðið megni að upplýsa þjóðina á heiðarlegan hátt um það, sem er að gerast innanlands og utan, eftir getu ritstjórnarinnar hverju sinni.

Ritstjórn Dagblaðsins er eins og skuturinn, sem ekki má eftir liggja, þegar lesendur róa svo rösklega frammi. Í þeim þunga róðri treysta blaðamenn mjög á aðstoð og ábendingar lesenda, bæði við öflun frétta og við að vekja athygli á margvíslegum sjónarmiðum, sem þurfa að komast á framfæri í opnu og frjálsu þjóðfélagi.

Við vonum, að hinn fámenna hóp blaðamanna Dagblaðsins skorti ekki úthald í þessum lífróðri. Ævintýri Dagblaðsins hefur byrjað svo vel, að starfsmenn og aðrir aðstandendur blaðsins eru lesendum skyldugir að láta ekki deigan síga.

Á næstu vikum verður ötullega unnið að frekari útbreiðslu Dagblaðsins, bæði á Reykjavikursvæðinu og hvarvetna í strjálbýli landsins. Vonum við, að almenningur taki vel uppástungum um áskrift að blaðinu og að hinir áhugasömu missi ekki þolinmæðina. þótt símar blaðsins séu á tali klukkustundum saman. Við vonum líka, að þeir, sem ekki geta komizt yfir blaðið, sýni nokkra biðlund, meðan dreifing þess er að komast í fastar skorður.

Starfsmenn blaðsins hafa beðið fyrir sérstakar þakkir til lesendanna fyrir viðtökurnar í gær. Þær urðu þess valdandi. að okkur hlýnaði um hjartarætur. Og þær verða okkur vonandi sú hvatning sem, dugar samstarfi lesenda og starfsmanna Dagblaðsins til sigurs.

Kærar þakkir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið