Patreksfjörður er í sviðsljósinu þessa dagana, af því að staðurinn hefur misst kvóta tveggja togara. Um daginn komst Hofsós í fréttirnar, af því að sveitarfélagið varð gjaldþrota. Á næstu mánuðum munu önnur sveitarfélög verða vettvangur harma af einhverju slíku tagi.
Mynztrið í flestum slíkum vandræðum er vítahringur byggðastefnunnar, sem felst í, að góðgerðastarf ríkisins leiðir ekki til farsældar þiggjenda, heldur stækkar vanda heimamanna og frestar honum í senn, en leiðir yfirleitt til hrikalegri og dýrari endaloka en ella hefði verið.
Byggðastefnan tekur fjármagn frá arðbærum verkefnum, sem geta staðið undir vöxtum og magnað þjóðarhag, og veitir því til forgangsverkefna úti um land. Skýrast sést þetta í landbúnaði, sem einn út af fyrir sig getur gert Ísland gjaldþrota, ef menn gá ekki að sér.
Hluti forgangspeninganna fer þó til útgerðarstaða. Bjartsýnir eldhugar og athafnamenn, bæði heimamenn og aðfluttir, byggja skýjaborgir með öflugum stuðningi opinberra sjóða og banka, sem stjórnmálamenn byggðastefnunnar hafa lagt á herðar skattgreiðenda.
Stundum er reynt að hamla gegn ótakmarkaðri bjartsýni með því að setja einhver mörk, til dæmis með kröfum um veðhæfni. Í raun fer þó yfirleitt svo, að slíkar kröfur gleymast fljótt, ef mikið er talið í húfi. Smám saman safna eldhugarnir rembihnýttum skuldaböggum.
Hraðfrystihúsið á Patreksfirði er glæsilegur loftkastali, sem sogaði til sín peninga eins og svampur. Það var átta ár í byggingu, svo að menn höfðu nægan tíma til að hala í land. En bjartsýnismennirnir héldu áfram að slá og opinberu sjóðirnir héldu áfram að borga.
Fyrir ári var frystihúsinu lokað og er það enn lokað. Tveir togarar þess seldu afla sinn til annarra verstöðva eða sigldu með hann úr landi. Þannig hefur ástandið verið í tæpt ár, svo að langt er síðan góðgerðastarfið hætti að stuðla að atvinnu og búsetu á Patreksfirði.
Nú er svo komið, að loftkastalinn er formlega gjaldþrota og að togararnir hafa með öllum sínum kvóta verið seldir á uppboði til Hafnarfjarðar. Talið er, að verðgildi kvótans í sölunni hafi numið um 90 milljónum króna eða nálægt þriðjungi söluverðs togaranna.
Atvinna og búseta á Patreksfirði minnka ekkert við þessa sölu, því að togararnir voru fyrir löngu hættir að landa heima. Hins vegar er skýjaborgin hrunin, bjartsýnin horfin og athafnaþráin lömuð. Hinn innri kraftur búsetu á Patreksfirði hefur beðið snöggan hnekki.
Skjótfenginn auður fuðrar venjulega fljótt á braut. Ef Patreksfjörður hefði ekki notið meiri ríkisnáðar en hver annar aðili, sem þarf að berjast um lánsfé á heilbrigðum markaði, væri hann fátækari að mannvirkjum og brostnum vonum, en ætti nú meiri framtíð fyrir sér.
Góðgerðakerfi byggðastefnu er eins konar byggðagildra, sem hvetur til óraunsærra fjárfestinga í opinberum mannvirkjum, fyrirtækjum og íbúðum. Verðgildi steypunnar reynist lítið, þegar ekki er lengur hægt að borga reikningana og hamarinn skellur í fógetaborðið.
Þjóðfélagið í heild borgar brúsann að mestu, þótt tjón heimamanna sé tilfinnanlegt. Fjármagnið, sem fór í súginn, kemur ekki til baka. Nýjar björgunaraðgerðir kosta enn meiri peninga og þannig magnast hinn miðstýrði vítahringur ár frá ári, áratug frá áratug.
Að lokum bíður byggðastefnan skipbrot, velferðarríki atvinnulífsins hrynur og góðgerðastofnunin Ísland verður seld útlendingum eins og Nýfundnaland.
Jónas Kristjánsson
DV