Olíukreppan hefur komið mönnum merkilega á óvart. Sem dæmi má nefna Bandaríkin, þar sem stjórnvöld virðast ekki hafa haft í handraðanum fyrirfram undirbúnar ráðagerðir til að mæta olíukúgun Araba. Eru þó til þar í landi stofnanir, sem spá um framtíðina fyrirstjórnvöld og aðra aðila og hafa breytilegar og óvæntar forsendur sem grundvöll að útreikningum sínum.
Framsýnir menn hefðu þó átt að gera ráð fyrir þeim möguleika, að olíuvopnið yrði notað, úr því að það var til. Og þar að auki var vitað, að olían er eitt þeirra hráefna, sem ganga til þurrðar, svo að tímabært var orðið að hafa á takteinum aðra orkugjafa, er leyst gæti olíuna af hólmi. En það er dæmigert fyrir litla framsýni mannkynsins, að menn skyldu fljóta sofandi að feigðarósi í olíumálinu.
Að vissu leyti er olíukreppan til góðs. Hún treinir vissulega þá olíu, sem til er, og getur opnað augu manna fyrir því, að margvísleg slík vandamál geta komið mannkyninu í opna skjöldu, ef ekki er gripið til gagnráðstafana í tæka tíð.
Við eigum að geta séð fram á, að hvert hráefnið á fætur öðru mun ganga til þurrðar á næstu áratugum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því, hvernig beri að mæta þeim vanda, hvort beri að spara þessi hráefni strax, nýta þau betur eða finna önnur, sem komið geti í staðinn.
Mengun umhverfisins er dæmi um vanda, sem er ekki auðvelt að ráða við, því að það tekur tíma að átta sig á henni. Mistök dagsins í dag geta leitt til mengunar, sem ekki kemur fram af fullri alvöru fyrr en eftir tvo áratugi. Þegar framin mistök á þessu sviði eiga enn eftir að koma okkur í koll.
Enn eitt dæmið er skuggahliðin á grænu byltingunni, sem hefur haldið innreið sina í þróunarlöndunum. Framleiðsluaukningin hefur leitt til lækkaðs verðlags á sumum landbúnaðarvörum og valdið sulti og öðrum hörmungum hjá þeim bændum í þróunarlöndum, er ekki hafa getað notfært sér grænu byltinguna. Þessa skuggahlið sáu menn ekki fyrir og eru því síðbúnir að mæta henni.
Eitt alvarlegasta dæmið er mannfjölgunin í heiminum. Menn eru alltaf að tala um takmörkun barneigna í þróunarlöndunum, en raunhæfar aðferðir eru af skornum skammti. Með sama áframhaldi offyllist hnötturinn af mannfólki fyrir miðja næstu öld, og þá er algert hrun siðmenningarinnar á næsta leiti.
Ófriðurinn fyrir botni Miðjarðarhafs og önnur þau vandamál, sem stjórnmálamenn heimsins eru önnum kafnir við, eru smávægileg miðað við hin dökku ský, sem hrannast upp á þeim sviðum, sem hér hafa verið rakin. Mengun, offramleiðsla og offjölgun mannkyns munu kaffæra börn okkar á næstu öld, ef ekki verður gripið í taumana, nú þegar og á næstu árum.
Finna þarf skjótlega leiðir til að stöðva fjölgun mannkynsins, minnka mengun frá því, sem nú er, og spara þau hráefni og þá orku, sem takmarkað magn er til af. Mannkynið stendur nú á þeim tímamótum, að þetta eru brýnustu verkefnin, málin, sem varða líf og dauða.
Jónas Kristjánsson
Vísir