Jóker í skátahreyfingu.

Greinar

Tveir fjármálamenn hafa braskað hastarlega með skátahreyfinguna á Íslandi og haft ráðamenn hennar að fíflum. Þetta eru eigendur Joker hf., spilastofu fyrir verðandi auðnuleysingja. Þessir fjármálamenn eru jafnframt framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Bandalags íslenzkra skáta.

Þeir fengu þá ágætu hugmynd að flytja sirkus til landsins. Þeim fannst hvimleitt að þurfa að greiða af slíku framtaki skatta til hins opinbera og ákváðu því að nota aðstöðu sína hjá skátahreyfingunni til að láta hana sækja um tilskilin leyfi og undanþágur.

Var málum hagað á þann hátt, að Bandalag íslenzkra skáta fengi nokkra þóknun fyrir að lána sitt góða nafn og rynni hún til byggingar félagsheimilis í Reykjavík. Bróðurparturinn átti hins vegar að renna til Joker hf. Hvorki menntamálaráðuneytinu né tollstjóra var skýrt frá þessu fyrirkomulagi.

Páll Gíslason skátahöfðingi viðurkenndi þetta leiðindamál í viðtölum við Dagblaðið og ríkisútvarpið fyrir tæpum tveimur vikum. Urðu menn almennt agndofa yfir því siðleysi, sem verið var að fremja í nafni skátahreyfingarinnar, bein skattsvik ofan á annað.

Þegar framkvæmdamenn og höfuðsmenn skáta áttaðu sig á viðbrögðum fólks, var búin til ný saga til að bjarga málinu í horn. Miðpunktur hinnar nýju sögu var sá að gera Pál skátahöfðingja ómerkan orða sinna. Var nú látið líta svo út sem sirkusinn hefði raunar alltaf verið á vegum Bandalags íslenzkra skáta og Jókermenn hefðu aðeins verið umboðsmenn þess.

Það tók um tíu daga að koma endanlegri mynd á hina nýju sögu. Má hafa það til marks um, hversu lítið mark er á henni takandi.

Ekki eru allir forustumenn í skátahreyfingunni jafn forstokkaðir og aðstandendur hinnar nýju sögu um sirkusinn. Ísfirzkur skátaforingi, Ólafur B. Halldórsson, ritaði ágæta grein, sem bjargaði því, er bjargað varð af heiðri skáta. Greinin birtist í Morgunblaðinu og hlýtur að hafa komið sumum lesendum þess jafn mikið á óvart og sumt af efni Pravda kemur Rússum á óvart, því að engar fréttir höfðu þá birzt um málið í Morgunblaðinu.

Ólafur lagði í greininni til, að vísað yrði úr starfi hjá Bandalagi íslenzkra skáta þeim mönnum, sem skaðað hefðu skátahreyfinguna í þessu máli. Ennfremur lagði hann til, að fullur skemmtanaskattur yrði greiddur af sýningum sirkusins. Loks lagði hann til, að kvatt yrði saman aukaþing bandalagsins til að ræða, hvernig bæta skuli álitshnekkinn, sem skátahreyfingin hefur beðið.

Í höfuðstöðvum skáta virðist mönnum hins vegar vera fyrirmunað að skilja mun siða og siðleysis. Í nýjustu yfirlýsingu skátahöfðingja er kafli: “Skátastarf stendur víða á mjög föstum grunni, svo sem á Ísafirði, en annars staðar eru skátafélögin mjög þurfandi fyrir utanaðkomandi aðstoð … “. Virðist þessi kafli segja, að Ísfirðingar kunni að hafa efni á að vera siðaðir, en svo þurfi ekki að vera um aðra skáta.

Og Jókermenn halda áfram að stjórna skátahöfðingjunum og skátahreyfingunni, því miður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið