Þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja hjá meðan þingmenn Alþýðuflokksins greiða atkvæði með frumvörpum, sem þeir sjálfir finna allt til foráttu. Þessi misjafna iðja verður Sjálfstæðisflokknum helzt til málsbóta í samkeppninni við Alþýðuflokkinn í stjórnarandstöðunni.
Að öðru leyti er Alþýðuflokkurinn svo fyrirferðarmikill í stjórnarandstöðu, að þar er tæpast rúm fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Alþjóð veit um skoðanir Vilmundar Gylfasonar og Braga Sigurjónssonar á efnahagslögunum nýju, en enginn man, hvaða álit Geir Hallgrímsson hafði á þeim né hvort hann hafði það.
Alþýðuflokkurinn fer á kostum í stjórnmálunum á öndverðum þessum vetri. Flokkurinn virðist kerfisbundið stunda stjórnarandstöðu í orði og stjórnarstuðning á borði. Þingmenn hans rakka í sig lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar og greiða þeim síðan atkvæði.
Ríkisstjórn, sem nýtur stuðning Alþýðuflokksins á þennan sérkennilega hátt, þarf raunar ekki á stjórnarandstöðu að halda. Það er kannski þess vegna, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gleymzt í hugum fólks.
Þar í flokki er hugsað hægt og gengið þreytulega til vígvallar. Enda er bardaganum yfirleitt lokið, þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemur til skjalanna. Alþýðuflokkurinn er búinn að berjast þar í stjórnarandstöðu með hávaða og látum og búinn að lúta í lægra haldi fyrir ríkisstjórninni.
Þar með er bardagamálið úr sögunni. Á næsta morgni rísa hinir vopndauðu og heyja nýjan bardaga út af nýju máli. Alltaf er Alþýðuflokkurinn í sviðsljósinu og alltaf missir Sjálfstæðisflokkurinn af lestinni.
Enginn hefur enn skýrt á frambærilegan hátt hvernig stjórnmálaflokkur getur í senn verið í stjórnaraðstöðu og stjórnarandstöðu að hætti Alþýðuflokksins. Ekki hefur leiksýningin vakið neina aðdáun kjósenda flokksins. Og enn síður vekur hún aðdáun samstarfsflokkanna í ríkisstjórn.
Aldrei hafa samstjórnarflokkar slegizt jafn hatrammlega hér á landi og Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið gera um þessar mundir. Blöð þessara flokka flytja því sem næst daglega óbótaskammir um hinn flokkinn.
Í öllum mikilvægum málum, sem hingað til hefur rekið á fjörur ríkisstjórnarinnar, eru þessir tveir flokkar á öndverðum meiði og ófeimnir við að lýsa sérstöðu sinni. Enda rambar ríkisstjórnin mánaðarlega á barmi falls.
Hlutverk sáttasemjarans hlýtur að vera ákaflega erfitt við þessar aðstæður. Þá kemur sér vel fyrir Framsóknarflokkinn að hafa léttar hugmyndafræðilegar föggur. Eigin skoðanir eru ekki mikið að flækjast fyrir, þegar flokkur forsætisráðherra er að reyna að bræða saman andstæðar hugmyndir órólegu flokkanna.
Ríkisstjórnin er eins og frumdýr, sem breytir lögun sinni eftir aðstæðum hverju sinni. Hugsanlegt er, að hún lifi hver innanbúðarátök á fætur öðrum. Og kannski verður fólk svo vant skrípaleiknum, að því finnist hann eðlilegur.
Hitt er ljóst, að gagnkvæmt traust skortir alveg í ríkisstjórninni. Samstarfið er bara form án innihalds. Bragi Sigurjónsson lýsti þessu þannig, að stjórnin væri dauð, en jarðarförin yrði auglýst síðar.
Löng bið kann að verða eftir jarðarförinni. En stjórnin er samt jafn dauð.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið