Nú á tímum er þjóðarbúskapur yfirleitt annað hvort rekinn sem markaðsbúskapur eða miðstjórnarbúskapur. Annað hvort er sjálfvirkni markaðsins, lögmálið um framboð og eftirspurn, látið stjórna hagþróuninni eða þá, að henni er stjórnað að ofan af framkvæmdastofnunum hins opinbera.
Alls staðar þar sem borgaralegir flokkar eða lýðræðissinnaðir jafnaðarflokkar hafa verið við völd, nema hér á landi, hefur markaðsbúskapurinn orðið ofan á. Hann er t.d. hvarvetna ríkjandi á Norðurlöndum. Og svo þreyttar eru sumar stjórnir Austur-Evrópuríkjanna orðnar á miðstjórnarbúskap, að þær eru í sívaxandi mæli farnar að fikta við markaðsbúskap. Júgóslavía hefur verið í broddi fylkingar á því sviði.
Reynslan hefur leitt í ljós galla miðstjórnarbúskaparins. Upplýsingastraumurinn upp og niður valdapýramídann er sífellt að brenglast og riðlast, mikið af honum fer forgörðum og auk þess er hann ákaflega seinvirkur.
Í markaðsbúskapnum eru ákvarðanirnar hins vegar teknar á sjálfum stöðunum, þar sem vandamálin koma fram. Og reynslan sýnir, að úr hinum ótal dreifðu ákvörðunum, sem teknar eru alls staðar í þjóðfélaginu, myndast furðulega samræmd hljómkviða, sem gefur þá mestu hagþróun, sem þekkist í sögunni.
Markaðsbúskapurinn hefur mjög styrkzt á síðustu árum og áratugum. Fundizt hafa leiðir til að deyfa efnahagskreppur þær, sem áður fyrr fylgdu markaðsbúskapnum reglulega. Og allir hinir mörgu aðilar, sem ákvarðanir taka, eiga nú aðgang að miklu betri upplýsingum en áður, ná- kvæmari hagskýrslum og efnahagsspám. Loks hefur tölvutæknin gert markaðsbúskapinn mun virkari og einkum fljótvirkari en áður var.
Yfirburðir markaðsbúskaparins hafa orðið eindregnari með hverju árinu. Austur-Evrópuríkin eru sífellt að gera alvarlegri tilraunir með einstaka þætti hans- Og risafyrirtæki Vesturlanda eru farin að óttast stærð sína. Þau eru sem óðast að dreifa valdi og ákvarðanatekt frá miðstjórninni til einstakra deilda og vinnustaða.
Íslendingar eru svo óheppnir, að markaðsbúskapurinn hefur aldrei verið talinn eins sjálfsagður hér á landi og í nálægum löndum. Við vorum sú þjóð Vestur-Evrópu, sem síðast hvarf frá miðstjórnarbúskap kreppuáranna. Meðan efnahagur nágrannaþjóðanna blómstraði, drógumst við með Fjárhagsráð og alla fylgikvillana, svo sem margfalt gengi, vöruskort og svartan markað. Það var ekki fyrr en með innreið viðreisnarstjórnarinnar, að við tókum upp markaðsbúskap að nokkru.
Síðan höfum við staðið í stað og jafnvel farið aftur á bak. Við búum við flókið ríkisfargan í efnahagslífinu, niðurgreiðslur, styrki, uppbætur, tekjutryggingar atvinnuvega, misræmi í lánsfjármagni, lánalengd, -kjörum og sjálfvirkni lána, innflutningsbönn, verðlagsnefndir, sjóðamillifærslur og jöfnunargjöld.
Þetta rotna kerfi brennir takmarkað fjármagn okkar. Það veldur því, að við þurfum að leggja til hliðar í fjárfestingu 27% af fé okkar til að ná sama hagvexti og Danir ná fyrir 19% og Bandaríkjamenn fyrir 17% og að við náum helmingi minni hagvexti en Japanir út á sama fárfestingarhlutfall.
Jónas Kristjánsson
Vísir