Vinsældir Jan Mayen eru alveg nýjar af nálinni. Eyjan kalda þótti lítils nýt fyrr en hafréttarráðstefnur Sameinuðu þjóðanna gerðu strandríkjum kleift að eigna sér víðáttumikil höf og hafsbotna.
Norska ríkið telur sig hafa átt Jan Mayen í 27 ár. Það “keypti” eyjuna árið 1952 af systrum Birger Jacobsen á 142 þúsund norskar krónur! Þær höfðu “erft” hana eftir bróður sinn árið 1942.
Birger þessi Jacobsen var verkfræðingur og kennari, sem kom til Jan Mayen árið 1921 og sló eign sinni á hana. Enginn gerði athugasemd við þetta framtak, enda hafði enginn áhuga á eyjunni.
Jacobsen tókst meira að segja árið 1933 að fá Hæstarétt Noregs til að staðfesta, að hann væri eigandi Jan Mayen. Á grundvelli þess úrskurðar “keypti” norska ríkið svo eyjuna löngu síðar.
Auðvitað átti Jacobsen aldrei Jan Mayen, hvað sem Hæstiréttur Noregs hefur úrskurðað. Hinn sérvitri verkfræðingur og kennari nýtti eyjuna aldrei sem eign sína. Eignarhaldið var ímyndun.
Hæstiréttur Íslands gæti alveg eins úrskurðað, að Íslendingar þeir, sem sóttu rekavið til Jan Mayen, eigi þessa vinsælu eyju. Þeir höfðu þessa áratugi meiri gögn og gæði af henni en Norðmenn.
Tilkall Norðmanna til Jan Mayen byggist mun fremur á því, að þeir hafa um nokkurt skeið haft þar vísindamenn í vetursetu. Þannig hafa Norðmenn “nýtt” eyjuna.
Eina ríkið, sem getur vefengt eignarhald Norðmanna, er Ísland. Jan Mayen er nefnilega á íslenzka landgrunninu. Þannig hafa Íslendingar efnahagslegra hagsmuna að gæta þar nyrðra.
Svo virðist sem hafréttarráðstefnur Sameinuðu þjóðanna gefi fullvalda ríki eins og Íslandi rétt til afskipta af hafsvæðum umhverfis ósjálfstæðar og lítt byggðar eyjar á landgrunni hins fullvalda ríkis.
Loðnuveiðar Norðmanna og úthafsflota austantjaldsríkja við Jan Mayen sýna, að við náum ekki fullum tökum á fiskistofnum íslenzka landgrunnsins, nema við nýtum rétt okkar við Jan Mayen.
Það gætum við gert með því að lýsa sjálfir yfir íslenzkri efnahagslögsögu við Jan Mayen, með þeim fyrirvara einum, að við vildum semja við Norðmenn um sameiginlega lögsögu á svæðinu.
Hér er ekki átt við hafið norðan miðlínu, heldur hafið norðan við löngu yfirlýsta 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Tilkall Norðmanna til miðlínu er algerlega marklaust hjal.
Auðvitað yrðu Norðmenn mjög reiðir,ef Íslendingar gerðu tilkall til landgrunnsins umhverfis Jan Mayen. Þá eigum við bara að verða hissa á reiði þeirra. Þannig eru skákir tefldar.
Fyrir Norðmenn og Íslendinga skiptir mestu að útiloka aðrar þjóðir frá fiskveiðum við Jan Mayen. Norðmenn hafa staðið sig illa í þeim efnum. Þeir hafa enn ekki lýst 200 mílum umhverfis eyjuna.
Við skulum því taka frumkvæðið í okkar hendur og alls ekki láta taka okkur á taugum, þótt norrænir veizluvinir okkar gerist háværir. Við skulum segjast reiðubúnir til samninga við Norðmenn.
Þeir geta teflt fram Jacobsen sínum, norskum hæstaréttarúrskurði frá 1933 og vetursetu-veðurfræðingum á Jan Mayen. Á móti teflum við fram ábyrgð okkar á öllu íslenzka landgrunninu.
Norsk stjórnvöld hafa farið langt yfir strikið í frekjunni gagnvart íslenzkum út af miðlínunni. Nú er tímabært að snúa vörn í sókn Það er alltaf frumkvæðið, sem gildir.
Það hefði Birger Jacobsen líka sagt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið