Ruslpóstur nemur 72% af öllum pósti á netinu, 124 milljón skeytum á degi hverjum, stíflar póstkassa og dreifir tölvuveirum. Varnaraðgerðir póstmiðla hafa um leið kastað barninu út með baðvatninu. Eitt slíkt fyrirtæki vestan hafs gekk svo langt, að það kastaði út pósti frá Evrópu, þannig að reiðir viðskiptavinir fengu ekki jólakortin sín. Ekki hefur fundizt nein skynsamleg leið til að greina milli alvörupósts og pósts, sem enginn vill. Mitt forrit hefur þá skemmtilegu aðferð að kasta út pósti, sem er á íslenzku. Eftir á að hyggja er það mér til mikils vinnusparnaðar.