Eftir 15. október verður Ísland tvöfalt stærra en það er nú. Það mun þá ná 200 mílur, suður, suðvestur og norðaustur í haf og hálfa leið til Grænlands og Færeyja. Þetta verður eitt stærsta skrefið í landhelgisbaráttu Íslendinga.
Skrefið er fyllilega tímabært. Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefur dregizt á langinn. Við getum ekki lengur beðið eftir því, að hún færi okkur 200 mílur á silfurfati, því að ýmsum mikilvægustu fiskistofnunum á Íslandsmiðum fer hnignandi um þessar mundir.
Undanfarin ár höfum við ekki veitt nema rúmlega helming aflans á Íslandsmiðum, þrátt fyrir tíðar útfærslur landhelginnar. Afli annarra þjóða hefur dregizt saman, en okkar afli hefur einnig dregizt saman. Skipakostur okkar er illa nýttur um þessar mundir og gæti hæglega afkastað öllum þeim veiðum á Íslandsmiðum, sem fiskistofnarnir þola.
Að sjálfsögðu munum við ekki fá að vera í friði með 200 mílurnar fyrsta kastið. Bretar og Vestur-Þjóðverjar munu áreiðanlega beita okkur ofbeldi samkvæmt venju. Það er ástæðulaus sjálfsblekking að gera ráð fyrir samkomulagi við þá í millitíðinni.
Við getum ekki heldur varið hina nýju landhelgi gegn þeim. Við verðum því að horfast í augu við það enn um sinn, að erlend veiðiskip stundi ofveiði og rányrkju hér við land. Og friður í samningum verður of dýru verði keyptur, þar sem hér er um að ræða þaulvanar samningaþjóðir. Við verðum að láta okkur nægja að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði.
Skynsamlegt var af stjórnvöldum að gefa þegar í upphafi kost á viðræðum við þá aðila, sem hagsmuna hafa að gæta. Það gefur einhliða útfærslu okkar geðslegri blæ í augum erlendra manna. En við skulum ekki gera ráð fyrir, að neitt komi út úr þessum viðræðum.
Að minnsta kosti Bretar og Vestur-Þjóðverjar reyna að kreista hvern einasta blóðdropa úr slíkum viðræðum og ekki skrifa undir neitt nema hálfgerða eða algera uppgjöf Íslendinga. Það er því ástæðulaust á þessu stigi málsins að fjölyrða of mikið um möguleika á undanþágum frá banni við veiðum erlendra skipa innan 200 mílna.
Því meira sem við tölum um nauðsyn á gagnkvæmri tillitssemi, svo og um hagsmuni okkar af vinsamlegum samskiptum við nágrannaþjóðirnar, því sannfærðari verða viðsemjendur okkar um, að við verðum viðráðanlegir og eftirgefanlegir í samningum. Sanngirni af okkar hálfu herðir þá bara í kröfugerð sinni.
Þegar er búið að beita okkur flestum þeim viðskiptaþvingunum, sem Bretar og Vestur-Þjóðverjar hafa tök á. Við sætum nú þegar refsitollum í Efnahagsbandalagi Evrópu og löndunarbanni í Þýzkalandi. Við getum því yppt öxlum, þótt löndunarbann í Bretlandi bætist við. Verði þeim að góðu.
Við þurfum ekkert á samningum við þessi ríki að halda. Við getum hæglega lifað af eitt þorskastríð í viðbót. Við vitum nefnilega, að hafréttarráðstefnan mjakast áfram og færir okkur um síðir sigurinn heim.
Jónas Kristjánsson
Vísir