Ískaldur sannleikur

Greinar

Einn þrálátasti misskilningur alþjóðastjórnmála er, að ríku þjóðirnar haldi niðri verði á mat og hráefni til þess að arðræna þjóðir þriðja heimsins.

Staðreyndin er sú, að ríku þjóðirnar sjálfar framleiða 70% af mat og hráefnum heimsins. Og það eru einkum þessar ríku þjóðir, sem eru aflögufærar í mat og hráefnum til milliríkjaviðskipta.

Það eru ekki Indland og Kína, sem eru matarforðabúr heimsviðskiptanna. Það eru Bandaríkin og Efnahagsbandalagið, sem framleiða svo mikinn mat, að hvorki er unnt að selja né geyma öll þau ósköp.

Langmestur hluti hráefna heimsins er grafinn úr jörðu í Ástralíu, Norður-Ameríku, Vestur-Evrópu, Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Námugröftur í þriðja heiminum er mun minni,jafnvel þótt miðað sé við íbúafjölda.

Af þessu má ljóst vera, að það bætir ekki stöðu ríku þjóðanna gagnvart þriðja heiminum að halda lágu verði á mat og hráefnum í hlutfalli við iðnaðarvörur.

Á þessari almennu reglu er ein mikilvæg undantekning og það er olían. Þar tókst olíuframleiðsluríkjunum líka að brjótast undan verðsvelti ríku þjóðanna. Arabaríkjunum tókst raunar að koma sér í hóp ríku þjóðanna.

En þriðji heimurinn er jafn fátækur og fyrr, því að hann verður að flytja inn sína olíu eins og ríku þjóðirnar.

Fyrir utan olíuna eru ríku þjóðirnar meira en sjálfum sér nógar á flestum sviðum. Þau geta meira að segja hagnýtt tækni sína til framleiðslu á gerviefnum, ef verð innfluttra hráefna hækkar yfir visst mark.

Ríku þjóðirnar hafa ekki grætt og græða ekki á viðskiptum sínum við þriðja heiminn. Auður Vesturlanda er ekki frá neinum tekinn. Hann er búinn til með nýrri þekkingu í vísindum, tækni, skipulagi, stjórnun og sölu, sem ríku þjóðirnar hafa þróað með sér.

Nýlenduveldin hafa meira að segja tapað á viðskiptum sínum við þriðja heiminn. Bretland hefur ekki náð sér enn. Hins vegar hafa Svíar og Svisslendingar orðið ríkastir allra, enda aldrei átt neinar nýlendur. Þjóðverjar og Japanir urðu ekki ríkir fyrr en þeir losnuðu við nýlendur sínar.

Ríku þjóðirnar eiga ekki sök á eymd þriðja heimsins. Sú eymd er raunar mun minni en hún var, áður en þriðji heimurinn kynntist Vesturlöndum. En ríku þjóðirnar hafa kynnt töframátt iðnbyltingarinnar fyrir þriðja heiminum.

Þess vegna ber ríku þjóðunum skylda til að fylgja iðnbyltingunni eftir með margvíslegri aðstoð til að auka líkurnar á, að þriðji heimurinn ráði við iðnbyltinguna og megni að snúa henni sér í hag.

Sú hugmynd, að ríku þjóðirnar hafi tekið eitthvað frá þriðja heiminum, sem nú beri að skila, kemur ekki að neinu gagni. Hún leiðir aðeins til þess, að leiðtogar þriðja heimsins koma sér hjá að horfast í augu við þá staðreynd, að þriðji heimurinn verður að hafa fyrir sinni iðnbyltingu að mestu leyti sjálfur, þótt aðstoð komi utan frá.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið