Innviðirnir skjálfa.

Greinar

Sjálfstæðismenn dreymir ekki lengur um meirihluta á alþingi. Þeir sjá nú skyndilega fram á litla fylgisaukningu frá hruni síðustu kosninga, þrátt fyrir einstakt lánleysi vinstri stjórnarinnar.

Í fyrravetur og í sumar græddist Sjálfstæðisflokknum fylgi, ekki vegna gerða flokksins, heldur vegna sundrungar og ráðleysis vinstri stjórnarinnar. Þá mældu skoðanakannanir flokknum fylgi helmings kjósenda.

Reiðarslagið kom svo í kosningaundirbúningnum, þegar Sjálfstæðisflokkurinn lenti í sviðsljósinu. Þá varð kjósendum ljóst, að ekki aðeins vinstri stjórnin var margklofin, heldur Sjálfstæðisflokkurinn einnig.

Enn ein hreinsunarherferðin hófst í flokknum. Sú herferð náði hámarki í frægri ferð Geirs Hallgrímssonar um Suðurland til að hindra samkomulag um skipun Eggerts Haukdal í eitt efstu sæta listans.

Áratugur Geirs Hallgrímssonar í Sjálfstæðisflokknum hefur framar öllu einkennzt af hatrömmum tilraunum flokkseigendafélagsins til að gera flokkinn að auðmjúkum sértrúarsöfnuði í kringum Geir og flokkseigendur.

Prófkjörin hafa hindrað, að þessar hreinsanir hafi náð til þingmannsefna flokksins. Þau gerðu það líku að þessu sinni í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi. Í slíkum kjördæmum prófkjara varð enginn klofningur.

Í Reykjavík fengu góða útkomu bæði menn, sem verið hafa óþjálir flokkseigendafélaginu, og aðrir, sem verið hafa því óháðir. Allt stefndi því að þeirri niðurstöðu, að eigendur næðu ekki meirihluta í þingflokknum.

Herferðin var þá mögnuð í öðrum kjördæmum, einkum þar sem prófkjörum var ekki beitt til að velja frambjóðendur flokksins. Í tveimur slíkum kjördæmum tókst að búa til klofning, á Suðurlandi og á Norðurlandi eystra.

Framboðin í þessum landshlutum mátti ákveða með prófkjöri, sem allir hefðu sætt sig við án klofnings. Úr því að prófkjör fengust ekki, mátti ná samkomulagi – á Suðurlandi milli héraða. En Geir gerði sér ferð til að hindra slíkt.

Ingólfur Jónsson hefur löngum verið friðarins maður í Sjálfstæðisflokknum. Í mörgum tilvikum hefur hann lagt hart að sér við að hindra missætti í flokksforustunni. En í þetta sinn ofbauð honum yfirreið Geirs.

Yfirlýsing Ingólfs um stuðning við framboð Eggerts Haukdal og fleiri er örlagaríkasti atburðurinn í stjórnmálasögu Geirs Hallgrímssonar og flokkseigendafélagsins. Þann dag skulfu innviðir flokksins fyrst að marki.

Sennilega gefst Geir Hallgrímsson ekki upp fyrr en búið er að gera Sjálfstæðisflokkinn að fámennum sértrúarsöfnuði, sem lýtur vilja flokkseigendafélagsins í einu og öllu. Að þessu stefna bæði fyrri og síðari tilraunir til hreinsunar.

Flokkseigendafélagið vill heldur hafa 11 þingmenn í 20 manna þingflokki en jafnmarga þingmenn í 25 eða 28 manna þingflokki. Þessi staðreynd kemur nú í veg fyrir, að Sjálfstæðisflokkurinn geti hagnazt á vinstri stjórninni.

Í stórum flokkum, þar sem klíkuformenn gerast flokksformenn, verða þeir að temja sér hætti friðarhöfðingjans, sem ber klæði á vopnin, sættir sjónarmið innan flokks og heldur honum stórum. Slíkan formann þarf flokkurinn nú.

Sjálfstæðisflokknum er það dýrt spaug að hafa á oddinum formann og eigendafélag, sem er svo upptekið af hreinsunaráráttu, að flokkurinn getur ekki veitt vinstri flokkunum neina ráðningu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið