Blaðamenn Dagblaðsins hafa undanfarnar vikur verið á ferðinni í öllum landsfjórðungum að ræða við frambjóðendur allra flokka í sveitarstjórnarkosningunum, sem verða eftir viku.
Kosningaefni þetta verður sennilega orðið um 80 síður í Dagblaðinu, þegar öll kurl eru komin til grafar. Verður þá væntanlega búið að ræða við forustumenn allra lista í öllum sveitarfélögum, sem hafa fleiri en 500 íbúa.
Þetta er í fyrsta skipti, sem dagblað reynir að gefa lesendum innsýn í kosningamál um 45 sveitarfélaga á óflokksbundinn hátt. Lestur þessa efnis á líka að gefa nokkra hugmynd um, hvað er kosið um í sveitarstjórnarkosningunum.
Greinarnar sýna lesendum svart á hvítu, hversu mikill munur er á alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Munurinn er ekki aðeins sá, að alþingiskosningar eru um landsmál en hinar um heimamál. Þar á ofan eru heimamál sveitarfélaganna afar misjöfn.
Sum sveitarfélögin eru uppgangsstaðir með nægri atvinnu. Þar þurfa sveitarfélögin sjálf ekki að verja miklu fé né tíma til atvinnumála. Á öðrum stöðum eru atvinnumálin eitt helzta viðfangsefni sveitarfélagsins.
Þetta er eðlilegur mismunur. Ef atvinnutekjur íbúanna eru í hættu, hlýtur sveitarfélagið að sinna atvinnumálum meira en öðrum málum. Það tekur þátt í stofnun fyrirtækja og kaupum á þeim og leggur töluvert á sig við að búa í haginn fyrir atvinnurekstur.
Jafnvel þótt sveitarfélög hafi ekki þennan vanda á herðum, eru önnur vandamál yfirleitt staðbundin. Á einum stað er skóli efst á baugi, heilsugæzlustöð á öðrum. Á einum stað er félagsheimili á oddinum, sundlaug á öðrum. Á einum stað stefna menn að hitaveitu, að varanlegri gatnagerð á öðrum.
Í kosningabaráttu sveitarfélaganna deila menn líklega mest um röð verkefna. Sú barátta gefur kjósendum gott tækifæri til að kjósa þá frambjoðendur, sem vilja framkvæma verkefnin í sömu röð og kjósendur vilja.
Í flestum sveitarfélögunum eru kjósendur þar á ofan kunnugir frambjóðendum og gera sér nokkra grein fyrir misjafnri hæfni þeirra. Það mat hefur jafnan veruleg áhrif á, hvernig atkvæði falla á lista í sveitarstjórnarkosningum.
Einn mesti vandi sveitarfélaganna er, hversu erfitt er að fá gott fólk til pólitískra starfa. Sú vinna gefur sáralítið í aðra hönd, en er oft mun tímafrekari en tala funda gefur til kynna. Þess vegna hlýtur alltaf að vera dálítið af lítils nýtum kjaftöskum í sveitarstjórnum.
Hitt er kannski athyglisverðara, hve mikið er þrátt fyrir allt af vel hæfu fólki í framboði til sveitarstjórna. Það fólk getur svo vænzt virðingar samborgara sinna, ef vel gengur. Of oft sætir það þó óréttmætri gagnrýni.
Að öllu þessu athuguðu er ekki undarlegt, þótt framboðslistar og atkvæðagreiðslur séu töluvert á annan veg í sveitarstjórnarkosningum en alþingiskosningum. Töluvert er um sameinuð framboð tveggja stjórnmálaflokka eða fleiri. Einnig blómstra óháðir listar, án tengsla víð stjórnmálaflokkana.
Vonandi veita kosningagreinar Dagblaðsins lesendum nokkra innsýn í hinn margþætta heim sveitarstjórnarmála.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið