Innri hlákan.

Greinar

Þetta ár er sagt ár hlákunnar í samskiptum austurs og vesturs, einkum vegna ráðstefnunnar í Helsinki, sem lauk með margvíslegum fögrum orðum en litlu innihaldi. Þessi margumtalaða hláka er raunar lítt áþreifanleg og af sumum talin lítið annað en framhald kalda stríðsins með nýjum vopnum.

Einn þáttur hlákunnar er þó einkar mikilvægur. Það er ítrekun ráðstefnunnar í Helsinki á gildi almennra mannréttinda og á nauðsyn frekari þróunar þeirra. Þessi hugsjón var raunar sett fram á skýran hátt í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma, en hefur jafnan verið þverbrotin af flestum ríkjum samtakanna.

Mannréttindi hafa löngum verið og eru enn sérmál Vesturlanda. Þau byggja á gamalli lýðræðishefð nokkurra ríkja í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku og hafa verið lengi að þróast.

Vesturlandabúar hafa að verulegu leyti gefizt upp á að breiða út hugsjónir mannréttinda í öðrum heimshornum. Menn gera sér ekki mikla rellu út af Amin Úgandaforseta, svo að dæmi sé tekið, og jafnvel páfinn lætur sig hafa það að þrýsta hönd hans.

Helzt vakna menn, þegar vandamálin gerast við bæjardyrnar. Brot á mannréttindum í Grikklandi, Portúgal og Spáni eru tekin til umræðu á Vesturlöndum af því að þetta eru Vestur-Evrópuríki. Brot á mannréttindum í Chile eru tekin til umræðu, af því að Bandaríkin hafa verið áhrifaafl í sviptingunum þar í landi.

Gagnrýni Vesturlandabúa á stjórnarháttum á Spáni og í Chile er fyllilega réttmæt og mætti gjarnan vera meiri. En eftir Helsinki-ráðstefnuna vaknar sú spurning, hvort ekki sé rétt að fara að gera hliðstæðar kröfur til ríkisstjórnar Sovétríkjanna og annarra Austur-Evrópuríkja.

Nóbelsverðlaun Sakharovs og Sakharov-réttarhöldin í Kaupmannahöfn minna okkur líka á, að mannréttindi eru virt að vettugi í miklu hrikalegri stíl í Sovétríkjunum en á Spáni og í Chile. Sú ógnarstjórn á að koma okkur við á sama hátt og ógnarstjórnin á Spáni og í Chile.

Spánn og Chile eru ekki lokuð lönd í líkingu við Sovétríkin. Þau eru ekki jafnþrælsleg fangelsi og Sovétríkin eru. Við höfum hingað til ekki gert háar kröfur til mannréttinda í Sovétríkjunum. En hlákan í samskiptum austurs og vesturs verður engin alvöruhláka, nema Vesturlandabúar þrýsti stöðugt á stjórnvöld Sovétríkjanna með kröfum um aukin mannréttindi þar í landi. Hláku milli ríkja hlýtur að fylgja hláka innan ríkja.

Nú þurfum við að láta okkur meira skipta örlög frjálshyggjumanna og annarra andstæðinga ráðstjórnarinnar í Sovétríkjunum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þar eru hundruð þúsunda manna í fangabúðum fyrir engar sakir í vestrænum skilningi og að þar er enn verið að drepa fólk og loka inni á svonefndum geðveikrahælum vegna stjórnmála, frjálshyggju, trúar og annars slíks, sem á Vesturlöndum er talið einkamál hvers og eins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið