Innikróuð risaeðla

Greinar

Gamalreyndasti lýðskrumari landsins er Morgunblaðið. Gott dæmi um það er afstaða þessarar öldnu risaeðlu íslenzkrar fjölmiðlunar til kjaramála. Í manna minnum hefur sú afstaða ætíð snúizt við breytingar á afstöðu blaðsins til ríkisstjórnar.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórn, er Morgunblaðið harðsnúinn andstæðingur kauphækkana. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar utan stjórnar, er Morgunblaðið með kauphækkunum á jafn harðvítugan hátt. Þetta mátti auðveldlega sjá í tíð tveggja síðustu vinstri stjórna.

Kúvendingar Morgunblaðsins í þessu máli sem öðrum eru liður í tilraunum blaðsins til að grafa undan ríkisstjórnum, sem Sjálfstæðisflokkurinn á ekki aðild að. Það sást á tíma beggja síðustu vinstri stjórna, að ekkert flokksblað stundar slíka baráttu eindregnar en einmitt Morgunblaðið.

Auðvitað er blaðið að þessu leyti ábyrgðarlaust. Afstaða þess er hins vegar að ýmsu leyti skiljanleg. Í hita hinnar flokkspólitísku baráttu falla menn oft í þá gildru að telja tilganginn helga meðalið. Lýðskrum er ein af mörgum nótum í þunglamalegum áróðurskviðum Morgunblaðsins.

En blaðið er ekki eitt um þetta böl. Önnur flokkspólitísk blöð hér á landi reyna líka að afla flokkum sínum atkvæða með skrumi og blekkingum. Morgunblaðið stendur bara fremst í þeirri fríðu fylkingu og hrópar til dæmis ófeimið: “Báknið burt”, meðan umbjóðandi blaðsins er önnum kafinn við að efla báknið.

Óháð blöð finna hins vegar miklu síður til þessarar hættulegu löngunar. Þau eru ekki að gæta hagsmuna ákveðinna stjórnmálaflokka, sem eru að reyna að halda í fylgi eða efla það. Þau eru ekki að telja atkvæði.

Óháð blöð þurfa kaupendur og reyna með ýmsum hætti að draga athygli þeirra að sér. Þau eru að því leyti hliðstæð öðrum seljendum vöru og þjónustu. Flokksblöðin eru hins vegar að berjast um sálir og skoðanir manna. Í slíkri baráttu eru lýðskrumsfreistingarnar mestar.

Um þessar mundir er vandi Morgunblaðsins sá, að almenningur er farinn að sjá við lýðskrumi þess. Menn sjá blaðið reisa Pótemkintjöld umhverfis vafasamar og beinlínis rangar gerðir ríkisstjórnarinnar. Fólk er hætt að trúa því, að tjöldin séu sjálfur raunveruleikinn.

Vaxandi mótlæti Morgunblaðsins hefur komið hinni gömlu risaeðlu úr jafnvægi. Morgunblaðið er orðið eins og dýr, sem finnst það vera króað inni, án þess að það sjái neina undankomuleið. Slík dýr tryllast stundum.

Hver dularfullur leiðarinn á fætur öðrum hefur birzt í Morgunblaðinu undanfarna daga. Áður lét blaðið sér nægja að kvarta um, að vondir menn hefðu vélað um fyrir þjóðinni og látið hana hætta að trúa á Morgunblaðið.

Nú er blaðið hins vegar orðið skrækróma. Í fyrradag notaði Morgunblaðið orðið “lýðskrumarar” sextán sinnum í einum og sama leiðaranum og “vindhanar” nokkru sjaldnar. Ætla mætti, að Morgunblaðið sé farið að stunda síðbúna sjálfsgagnrýni undir rós.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið