Indland = Indira?

Greinar

Indland hefur verið sér á parti meðal þróunarlanda heims þann aldarfjórðung, sem landið hefur verið sjálfstætt ríki. Þar hefur farið saman á næsta illskiljanlegan hátt efnahagsleg vanþróun og stjórnmálaleg háþróun.

Indverjar ern bláfátæk þjóð, sem hvað eftir annað rambar á barmi víðtæks hungurdauða. Atvinnuvegirnir eru yfirleitt ákaflega frumstæðir og tekjur manna með því lægsta, sem þekkist í heiminum.

Samkvæmt lögmálum þriðja heimsins ætti því að hafa ríkt í Indlandi einræði, sósíalismi og þjóðernisrembingur. Í stað þess hafa Indverjar haldið fast við lýðræðislegar hefðir, sem þeir lærðu af Bretum á sínum tíma.

Kosningar hafa verið frjálsar í Indlandi og fjöldi ólíkra stjórnmálaflokka hefur getað tekið þátt í þeim. Prentfrelsi og aðrir þættir skoðanafrelsis hafa verið í heiðri hafðir. Dómsvaldið í landinu hefur verið sjálfstætt að meira eða minna leyti.

Dómurinn yfir Indiru Gandhi forsætisráðherra var dæmigerður um þessar lýðræðislegu hefðir. Í fáum öðrum ríkjum þriðja heimsins hefðu dómarar þorað að reita til reiði sjálfan þjóðarleiðtogann með herinn og lögregluna að baki sér.

Að sjálfsögðu var slíkt ástand of gott til að endast. Það hefur nú komið í ljós, að lýðræðishefðir Indverja eru byggðar á sama sandinum og í öðrum ríkjum þriðja heimsins.

Í kjölfar dómsins hefur Indira Gandhi reitt hátt til höggs og greitt lýðræðinu í Indlandi rothögg. Hún hefur látið setja herlög í landinu og fangelsað flesta stjórnmálaandstæðinga sína, mörg þúsund manns.

Vera kann, að þessir menn verði aftur leystir úr haldi. En lýðræðið í Indlandi verður aldrei aftur samt, þótt svo verði. Fordæmi hefur verið gefið. Valdhafar, sem óttuðust um stöðu sína, hafa beitt herlögum og fangelsunum til að verja völd sín. Þegar búið er að gera sumt einu sinni, verður það gert aftur og aftur.

Gandhi hefur síðan fylgt nákvæmlega forskriftum annarra einræðisherra þriðja heimsins. Hún ver gerðir sínar sem gagnaðgerðir gegn fyrirhugaðri morðtilraun við sig og gegn fyrirhugaðri stjórnarbyltingu. Slíkur uppspuni er eitt algengasta bragð einræðisherra undir slíkum kringumstæðum.

Gandhi reynir nú að dreifa huga alþýðunnar með brauði og leikjum. Hvort tveggja er gamalkunnugt og hefur reynzt öðrum einræðisherrum vel. Annars vegar er lofað lækkun skatta og vöruverðs og öðrum vinsælum aðgerðum. Hins vegar eru barðar bumbur og talað um, að þjóðin verði að standa saman gegn ásælni Pakistana.

Flest virðist benda til þess, að Indland geti hæglega runnið inn í vítahring þriðja heimsins. Sá vítahringur er einhvern veginn á þessa leið: Einræði – skoðanakúgun – fangelsanir – sósíalismi – þjóðernishroki – stríð – meira einræði – meiri skoðanakúgun – fleiri fangelsanir – meiri sósíalismi – meiri þjóðernishroki – meira stríð – enn meira einræði og svo framvegis.

Undarlegast er ef til vill, að Indverjar skyldu geta haldið merki lýðræðis á lofti í aldarfjórðung, unz Indira Gandhi hóf gönguna inn í vítahringinn.

Jónas Kristjánsson

Vísir