Húsnæðislánakerfi ríkisins er að riða til falls. Stórfellda fjármuni vantar til að afgreiða lán til húsbyggjenda á næsta ári, auk þess sem verðbólgan hefur rýrt verulega gildi lána Húsnæðismálastofnunarinnar. Þetta kom fram í umræðum á alþingi í vikunni, er Björn Jónsson félagsmálaráðherra svaraði fyrirspurnum Sverris Hermannssonar um ástandið í lánamálunum.
Björn hélt því fram, að byggingaframkvæmdir mundu dragast nokkuð saman á næsta ári. Mætti því ætla, sagði hann, að Húsnæðismálastofnunin þyrfti um 2,5 milljarða á því ári. En að óbreyttu ástandi verða tekjurnar ekki nema 1,3 milljarðar, eða einungis helmingur af þörfinni.
Eins og Sverrir benti réttilega á, er það aðeins ágizkun ráðherrans, að framkvæmdir muni dragast saman á næsta ári. Standist sú spá ekki, verður fjárþörf stofnunarinnar enn meiri en hér að framan greinir.
En þetta segir ekki alla söguna. Sverrir benti á að samkvæmt byggingarvísitölu hefði byggingarkostnaður aukizt um 108% frá maí 1970 til nóvember 1973, en lán Húsnæðismálastofnunarinnar hefðu aðeins hækkað um 33%. Þau voru þá 600.000 krónur á íbúð, eru nú 800.000 krónur, en þyrftu að vera rúmlega 1.200.000 krónur til að vega upp á móti verðbólgunni.
Á tíma viðreisnarstjórnarinnar reyndist unnt að hækka lán Húsnæðismálastofnunarinnar til samræmis við verðbólguna. Síðan vinstri stjórnin tók við hefur sigið skarpt á ógæfuhliðina, enda er verðbólgan meiri en áður hefur verið.
Þegar viðreisnarstjórnin fór frá, var fjárhagur stofnunarinnar svo sómasamlegur, að hún gat greitt húsbyggjendum lán á réttum greiðsludögum. Nú hefur þetta öryggi húsbyggjenda hins vegar horfið, því að stofnunin er oft meira eða minna á eftir áætlun með greiðslur sínar.
Þar að auki hefur stofnunin orðið að grípa til örþrifaráða til að halda lánastarfsemi sinni gangandi. Margir sterkir lífeyrissjóðir hafa hlaupið undir bagga og lánað henni mikið fé. En þar sem vextir af lánum lífeyrissjóða eru mun hærri en af lánum stofnunarinnar, er hún að syndga upp á framtíðina með þessum lántökum. Hún hefur töluverðan taprekstur af þessum endurlánum.
Slík örþrifaráð geta aðeins dugað í skamman tíma. Ef þau verða varanleg, bindur Húsnæðismálastofnunin sér þyngri framtíðarbagga en hún getur staðið undir.
Samkvæmt upplýsingum ráðherra vantar 1,2 milljarða á næsta ári til að fjármagna Húsnæðismálastofnunina. Og enginn veit hvar á að fá það fé. Ef hins vegar er reiknað með, að þá verði byggðar 2000 lánshæfar íbúðir, sem er fremur sennileg tala, og að lánað væri jafnvirði lánanna á viðreisnartímanum, eða um 1.200.000 krónur á íbúð, færi heildarfjárþörf stofnunarinnar upp í 3,6 milljarða eða í 2,3 milljarða umfram tekjur.
Þessar hrikalegu tölur sýna vel, hvernig ástandið er orðið í húsnæðislánakerfi ríkisins, þrátt fyrir stórfelldan ofvöxt ríkisbáknsins. Á þessu sviði er feikilegt verk að vinna, þegar skárri ríkisstjórn sezt að völdum.
Jónas Kristjánsson
Vísir