Þess eru fræg dæmi, að sannorð og óljúgfróð vitni skýri fyrir dómstóli á töluvert mismunandi hátt frá atburðum, sem skipta máli. Þetta sýnir, hve erfitt er að meta, hvað eru staðreyndir og hvað ekki.
Þetta er eitt af stærstu vandamálum fjölmiðla, sem eru að reyna að grafa upp staóreyndir og dunda ekki bara við að pússa yfirborðið. Í allri fréttamennsku og ekki sízt í rannsóknafréttamennsku verða mistök, stundum slæm mistök.
Þessi mistök eru stundum notuð til stuðnings þeirri röksemdafærslu, að dagblöð séu “gul” og noti rangfærslur til að selja fleiri eintök. Rannsóknir blaðamanna séu í rauninni æsifréttamennska, sem miði að því að annað dagblaðið geti staðið sig í sölusamkeppninni við hitt.
Þetta er í rauninni alrangt. Mistök og rangfærslur í blaðamennsku leiða til lengdar til þess, að lesendur missa tiltrú á blaðinu og sala þess dregst saman. Lesendur dagblaða eru alls ekki eins vitlausir og margir virðast halda.
Margs konar áhrifamenn, svo sem stjórnmálamenn, embættismenn, formenn og forstjórar, komast undir smásjá þeirra dagblaða, sem stunda rannsóknarfréttamennsku. Þeir kæra sig ekki um þessa smásjá, sem hindrar þá stundum í að fara sínu fram.
Þessir áhrifamenn fá óbeit á dagblöðunum, sem eru þeim til óþæginda. Þeir reyna aó hefja gagnsókn með því að benda á místök, sem dagblöðin gera sig óhjákvæmilega sek um á stundum. Þeir nota tækifærið til að draga í efa gildi rannsóknablaðamennsku.
Hugsun þeirra er þessi: Ef almenningur missir tiltrú á blaðinu, munu uppljóstranir þess í framtíðinni um framferði áhrifamanna ekki hafa eins mikil áhrif og ella. Þeir læða inn hugmyndum um, að rannsóknablaðamennska hegni saklausu fölki, valdi tjóni, grafi undan öryggi ríkisins, svo að kunnug dæmi séu nefnd.
Þessi undirróður var farinn að hafa töluverð áhrif á Vesturlöndum, unz uppljóstranir Washington Post um Watergate sýndu mönnum fram á, að almenningur getur alls ekki verið án rannsóknablaðamennsku. Lýðræðiskerfið er ekki virkt, nema dagblöðin veiti áhrifamönnum fullt aðhald.
Samt munu enn vakna kröfur um, að hið opinbera reyni að hafa hemil á blaðamennsku, einkum þeirri, sem fengið hefur heitið rannsóknablaðamennska. Menn munu áfram spyrja, hvaðan dagblöðunum komi vald tll að vera með nefið niðri í athöfnum áhrifamanna. Menn munu áfram spyrja, hver hafi gefið dagblööunum umboð til rannsókna og gagnrýni.
Svarið er ekki flókið. Lesendur slíkra dagblaða vita, að starfsmenn ritstjórna þeirra eru eftir beztu getu að reyna að veita almenningi upplýsingar um sigurverkið í þjóðfélaginu, þótt þeim verði stundum á mistök í þeirri viðleitni. Rannsóknablaðamenn starfa í umboði lesenda sinna og þurfa ekki annað umboð.
Það aðhald, sem dagblöðin þurfa sjálf á að halda, er einmitt aðhaldið af hálfu lesenda. Dagblöð eru frjáls og óháð, ef þau búa ekki við aðhald stjórnmálaflokka, þrýstihópa og voldugra aðstandenda, heldur aðhald lesenda sinna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið