Beztu lýsinguna á nýiðnaðarstefnu stjórnvalda er sennilega að finna í kjallaragrein eftir Leó M. Jónsson tæknifræðing, er birtist í Dagblaðinu nýlega. Sú grein er vissulega nokkuð færð í stílinn, lesendum til skemmtunar. En því miður er hver hugsun í henni samt grátlega sönn. Leó segir m.a.:
“Eftir að farið var að miðstýra öllu fjármagni iðnaðar á Íslandi getur enginn aðili stofnsett verksmiðju, sem kostar um eða yfir 100 milljónir án þess að dragast með lið opinberra og hálfopinberra skriffinna á hælunum meðan verið er að kría út lánin.
Og ekki nóg með það, heldur verður að syngja ástarsöngva undir altönum pólitíkusa látlaust, þar til einhver þeirra fæst til að beita áhrifum sínum á sjóðapésana …
Hjá hinu opinbera eru … sérstakir … iðnaðarrótarar, sem búa til skýrslur á skýrslur ofan. Skýrslurnar fara síðan fyrir pólitíkusa, sem fletta þeim og samþykkja eða vísa frá, eftir því hvað þær líta út fyrir að vera góð beita á atkvæðaveiðum.
Þá taka skriffinnar sjóðanna við og draga lógaritmatöflur upp úr skrifborðsskúffunni ásamt vasatölvu og byrja að reikna. Forsendur þurfa að líta vel út á pappírnum, vélar, markaður og tækni er nokkuð, sem skriffinnar hætta sér ekki nálægt, en arðsemi þarf að vera sem mest, fjárfesting hófleg og þjóðhagslegt gildi mikið. Allt nema vélar, markað og tækni má reikna á vasatölvu.
Ef til framkvæmda kemur, þá á einn aðilinn skýrsluna, annar á fjármagnið, sá þriðji sér um framkvæmdirnar og pólitíkusinn á heiðurinn – ef vel tekst til.
Sem sagt, ef einhver dugnaðarmaður í kerfinu er orðinn leiður á skrifborðsþönkum og blýantsnagi og er farið að langa til að sjá eitthvað verða að veruleika, þá eru hæg heimatökin. Hann býr einfaldlega til óskadraum pólitíkusins og sjóðapésans og áður en sól er setzt, er allt komið í gang.
Aðalatriðið er, að skýrslan sýni gull og græna skóga, – allt að því arðsemi eilífðarvélar. Raflínan af alfaraleið út á eyðisker er ekki talin með í stofnkostnaði, heldur ekki hafnargarður og nýr vegur.
Gert er ráð fyrir því, að allt fjúki upp á mettíma, svo hægt sé að ná í ráðherra og aðra dándismenn til að horfa á ráðherrann ýta á takkann, skála, skoða og láta ljúga sig fulla.
Síðan er keyrt í bæinn í bensum og bjúikkum, en eftir stendur stassjón með stýrisbúnað og græjur, sem enginn kann á, og helvítis þarinn liggur slímugur og gikkfastur um allar fjörur.
Í því hættir að rjúka á Reykhólum.”
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið