Í stríð við steintröllið

Greinar

Grímseyingar töldu sig vita betur en Vitamálaskrifstofan í Reykjavík, hvar og hvernig ætti að byggja hafnargarð í Grímsey. Embættismannavaldið syðra tók ekkert mark á Grímseyingum, faldi sig á bak við verkfræðinga sína og lét byggja þann fræga garð, sem nú sést hvorki tangur né tetur af.

Patreksfirðingar fengu viðurkennda sérfræðinga til að reikna út hagkvæmni virkjunar Suður-Fossár. Þessir sérfræðingar voru ekki embættismenn, svo að valdsmennirnir suður í Reykjavík tóku ekki minnsta mark á þeim og létu í staðinn virkja í Mjólká. Sú virkjun verður mun dýrari og vatnsminni en embættismannavaldið hafði áætlað.

Sunnlendingar tóku frumkvæðið í þróunarmálum landshluta sins og létu taka saman Suðurlandsáætlun um þróun atvinnulífs og opinberrar þjónustu á svæðinu. Alræðisherrunum í Framkvæmdastofnun ríkisins þótti Sunnlendingar lítið erindi eiga upp á dekk og komu i veg fyrir, að gerð áætlunarinnar yrði fjármögnuð með venjulegum og eðlilegum hætti.

Dæmin af þessu tagi hrannast upp. Hvarvetna lenda sveitarstjórnamenn í átökum við embættismannavald ríkisins í Reykjavík og ná engum árangri fremur en þeir væru að berjast við steintröll. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er orðin marklítil, því að ríkið hefur sölsað undir sig öll völd, sem skipta máli. Peningarnir, valdið og verkfræðingarnir hafa safnazt fyrir á opinberum skrifstofum í Réykjavík. Alvarlegasta skrefið í þessa átt steig ríkisstjórnin fyrir tæpum tveimur árum, þegar hún belgdi út tekjustofna sína á kostnað tekjustofna sveitarfélaga.

Aðeins Reykjavíkurborg hefur haft bein í nefinu til að hamla gegn ægivaldi ríkisins. Borgin hefur haft fjárhagslegan og þekkingarlegan styrk til að fara sinar eigin götur, t.d. í fræðslumálunum. En að undanförnu hefur ríkið reynt að kúga Reykjavíkurborg með því að hækka annars vegar stórlega gjaldskrár opinberrar þjónustu á vegum ríkisins og neita hins vegar um hækkun á gjaldskrám þjónustu á vegum borgarinnar. Þannig er reynt að þjarma að síðasta útverði sveitarstjórnavaldsins á Íslandi.

Hingað til hafa sveitarstjórnarmenn bara kvartað. En þeir hafa haldið áfram að ganga stafkarls stíg milli ríkisskrifstofa í Reykjavík til að sníkja mola af borði afræðisvaldsins. Nú er hins vegar kominn tími til að taka upp hanzkann og hefja baráttu við ríkisvaldið.

Sveitarstjórnirnar á landinu eru í margfalt nánara sambandi við fólkið en ríkisvaldið og embættismennirnir eru. Ef hinar dreifðu sveitarstjórnir taka saman höndum um að styðja í næstu alþingiskosningum eingöngu þá menn, sem treystandi er til að vinna ötullega að dreifingu valdsins frá ríkinu til sveitarfélaganna, er björninn að mestu leyti unninn.

Það er þjóðhagsleg og lýðræðisleg nauðsyn, að sveitarfélögin og landshlutasamtök þeirra taki við sköttum og skyldum af ríkisvaldinu. Með sameiginlegu átaki geta sveitarfélögin kúgað ríkisalræðið og reist sína Grímseyjargarða, þar sem þeir eiga að vera.

Jónas Kristjánsson

Vísir