Skætingur magnast nú mjög milli Alþýðublaðsins og Þjóðviljans út af tilraunum Ólafs Jóhannessonar til myndunar nýrrar vinstristjórnar. Fljúga hnúturnar daglega milli, bæði í leiðurum og öðrum dálkum blaðanna.
Almenningur getur notað skætinginn sem loftvog á gang viðræðnanna um stjórnarmyndun. Með sama áframhaldi fara þær senn að minna á gleðina hjá ,Goðmundi á Glæsivöllum, þar sem hnútur flugu um borð og menn vógu hver annan í góðsemi.
Varnarmálin skipa nokkurt rúm í þessum skætingi. Er raunar mesta furða, hve harður Alþýðuflokkurinn er á því sviði. Flokkurinn er frægari fyrir annað en skoðanafestu eins og kom til dæmis fram í vetur, þegar hann hljóp skyndilega á síðustu stundu undir bagga með ríkisstjórninni og hjálpaði henni til að hækka söluskattinn. Og stjórnarfreistingin kann enn að bera flokkinn og stefnumál hans ofurliði.
Alþýðublaðið sagði í leiðara í gær: “Stjórnarmyndun Ólafs Jóhannessonar hefur fyrst og fremst tafizt sökum þess, að Alþýðubandalagið hefur ekki fengizt til að svara þeirri spurningu, hvort það vilji sætta sig við úrslit Alþingiskosninganna, hvað varnarmál snertir.”
Í kjallaragrein ritstjórnar sama blaðs segir: “Varnarmálin teljast til aðalmála síðustu kosninga og er nú ljóst, að uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin á ekki fylgi að fagna meðal meirihluta kjósenda. Í kosningunum kom fram, að meirihluti þjóðarinnar vill í aðalatriðum óbreytta stefnu í utanríkismálum.”
Allt er þetta laukrétt hjá Alþýðublaðinu, en hins vegar ekki til þess fallið að auðvelda myndun vinstri stjórnar. En kannski leiðir þessi óvænta festa Alþýðuflokksins til þess, að Alþýðubandalagið beygi sig í duftið í varnarmálunum. Það hefur líka reynslu á því sviði, svo að þessi hugmynd er örugglega ekki fjarstæðukennd.
Verður fróðlegt að fylgjast með framvinda þessarar glímu Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins um varnarmálin. Afstaða Framsóknarflokksins í þeim málum skiptir litlu, því að hann mun taka upp þá varnarmálastefnu eða þær varnarmálastefnur,sem ofan á verða. Á því sviði hefur hann langa og dýrmæta reynslu.
Og Alþýðuflokkurinn sýnir klærnar á fleiri sviðum. Hann nuddar flokkum vinstristjórnarinnar upp úr tregðu hennar til samráða við Alþýðusambandið um efnahagsmál. Á því sviði segist hann geta boðið miklu betur.
Með sama áframhaldi leiða þau yfirboð til þess, að unnt verður að leysa stjórnarkreppuna með því að fela stjórn Alþýðusambandsins að stjórna landinu með vinsamlegu hlutleysi vinstri flokkanna á þingi.
Menn spyrja nú hver annan, hve lengi þetta þóf muni standa og hver muni um síðir beygja hvern. Eins og viðræðurnar um vinstristjórn hafa þróazt, er ljóst, að myndun stjórnar tekst ekki á þeim væng, nema einhver flokkurinn geri sig marklausan í augum kjósenda sinna með því að hlaupa frá stefnumálum sínum.
Tilraunirnar til myndunar vinstristjórnar eru orðnar að næsta ófriðlegu uppgjöri Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins.
Jónas Kristjánsson
Vísir