Hér á landi eru smáþjófar settir á Litla-Hraun, en stórþjófar sæmdir riddarakrossi. Þeir sitja í klúbbum góðra stráka með ráðamönnum þjóðarinnar og eru taldir fínir menn.
Þeir gorta ekki af aðstöðu sinni. Þeir segja mönnum ekki frá því, að þeir geti látið kaupa verðbréf með háum afföllum og látið síðan selja þau lánastofnunum á fullu verði.
Þeir hampa því ekki, að á þann hátt sé unnt að græða á einum stundarfjórðungi meira en ævitekjur verkamanns. Þeir minnast ekki á, hvort heppilegt sé í bransanum, að hluti hagnaðar renni til rekstrar stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna.
Stundum er þjófnaður hvítflibbamanna samt tiltölulega opinskár. Ráðherra flytur inn bíl handa sér meðan gjaldeyriskerfið er lokað vegna fyrirhugaðrar gengislækkunar. Annar ráðherra kaupir Víðishúshræ á uppsprengdu verði og hækkar jafnvel tilboð sitt, þótt enginn annar sé um boðið.
Þegar siðleysið er jafn gegndarlaust og þessi dæmi sýna, getur komið fyrir, að minniháttar körlum í bransanum verði fótaskortur á þagmælskunni. Einn nýlátinn athafnamaður gortaði af, að hann gæti hringt í Einar Ágústsson, þáverandi bankastjóra, jafnt á nóttu sem degi og látið afgreiða hvaðeina fyrir sig í Samvinnubankanum.
Skjöl þessa manns eru nú í vörzlu ríkissaksóknara. Þau voru lítillega könnuð, þegar þau komust í hendur hins opinbera. Full ástæða er til að ætla, að glöggskyggnir menn geti fengið af þeim sæmilega innsýn í einn þátt íslenzkrar fjármálaspillingar.
Samt var rannsókn skjalanna hætt fyrir mörgum mánuðum. Ekkert bendir til, að ríkissaksóknari hyggist taka þráðinn upp að nýju. Og engin teikn eru um, að hann ætli að athuga mjög alvarlegar upplýsingar, sem birzt hafa í Dagblaðinu.
Halldór Halldórsson hefur að undanförnu skrifað nokkrar greinar í Dagblaðið um skjöl þessa manns og viðskipti hans við Samvinnubankann. Þessar greinar eru vægast sagt hrollvekjandi lesning.
Bankaráð Samvinnubankans hefur svarað greinum Halldórs á svo frámunalega máttlausan hátt, að líkja má við beina sektarjátningu. Þar á ofan hefur Halldór rækilega sannað rangfærslur á bankaráðið.
Halldór hefur í greinum sínum rakið, hvernig einn af minni háttar milligöngumönnum í hinu rotna kerfi stjórnmála og lánastofnana hafði ótakmarkaðan aðgang að banka. Hann gat látið búa til gersamlega verðlaus verðbréf til að kaupa með afföllum og selja bankanum á fullu verði.
Á núverandi verðlagi voru það tugir milljóna, sem milligöngumaðurinn gat valsað með í Samvinnubankanum á sama tíma og þáverandi bankastjóri gat ekki staðið við loforð um jarðarfaravíxla venjulegs biðstofufólks.
Kannski finnst ríkissaksóknara og góðu strákunum í klúbbunum, að ekki sé siðlegt að nota illa fengin skjöl, þótt þau bendi til siðlauss athæfis. Slík afstaða væri kerfismönnum lík.
Hitt getur svo vel verið, að ráðamenn vilji ekki að Samvinnubankinn og Einar Ágústsson líði af tilviljun fyrir gerðir, sem teljist til hversdagslegra atriða í fjármálum lánastofnana.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið