“Hverju barni hlýtur að vera ljóst, að það fær ekki staðizt, að starfsmaður bankans hafi heimild til að stunda sérstaka persónulega útlánastarfsemi í samkeppni við bankann.”
Þetta sagði Helgi Bergs bankastjóri um daginn, er hann fjallaði um þá yfirlýsingu viðskiptavinar umrædds starfsmanns, að hann hefði alltaf haldið, að um einkalán væri að ræða, ótengd fjármunum bankans eða viðskiptafyrirtækja hans.
Bankastjórinn hefur vafalaust rétt fyrir sér í þessu efni. Og orðalag hans má einnig nota lítið breytt um annan þátt málsins, sem mikla athygli hefur vakið:
“Hverju barni hlýtur að hafa verið ljóst í 20 ár, að það fær ekki staðizt, að starfsmaður bankans geti á launum sínum lifað eins og “bankaræningi”, svo að notað sé orðalag Péturs heitins Benediktssonar.”
Í rauninni hefur auður umrædds starfsmanns verið umræðu- og undrunarefni í samkvæmislífinu í tvo áratugi. Menn hafa leitt getum að tilurð auðsins og okurlán verið nefnd í því sambandi, enda tilefni gefið í frægum hæstaréttardómi.
Bankastjórar Landsbankans hljóta að vera einstök börn, ef þeir hafa ekki orðið varir við þessa undrun manna. Hlýtur þó risna þeirra að gera þeim kleift að frétta ýmislegt í samkvæmislífinu.
Á fleiri sviðum hefur komið fram, að bankastjórn Landsbankans skortir sjálfsgagnrýni. Jónas Haralz bankastjóri hélt því til dæmis fram í upphafi málsins, að enginn annar starfsmaður bankans væri viðriðinn málið.
Engin ástæða er til að ætla, að bankastjórinn sé svo miklu næmari á þessu sviði málsins en öðrum, að hann geti fullyrt slíkt að órannsökuðu máli. Flestir mundu fara varlega í slíkar yfirlýsingar.
Ýmis rök hafa verið leidd að því, að bankastjórn Landsbankans ætti að láta af störfum meðan rannsókn málsins stendur sem hæst. Ýmis rök hafa einnig verið leidd að því, að svo róttæk aðgerð sé óþörf.
Hins vegar vekur furðu, að Jónas Haralz skuli lýsa því yfir, að bankastjórnin hafi aldrei rætt þann möguleika, að hún segði af sér. Ekki er þetta traustvekjandi yfirlýsing, því að auðvitað eiga umdeilanleg atriði að koma til umræðu.
Slíkur skortur á sjálfsgagnrýni og dómgreind í eigin sök hæfir ekki mönnum, sem ráðnir eru til að gæta sjálfs Landsbankans fyrir sjö milljón króna árslaun, auk ýmissa grófra fríðinda.
En svo er ekki allt á sömu bókina lært. Bankastjórnin hefur óskað eftir, að endurskoðendur utan bankans kanni málið á vegum ríkissaksóknara. Sú beiðni var skynsamleg og í samræmi við sjónarmið, sem komið höfðu fram á opinberum vettvangi.
Hitt vekur litla ánægju, að ríkissaksóknari skyldi ekki einmitt þegar í upphafi taka þetta atriði málsins föstum tökum. Menn óttuðust, að jafnvel hann teldi Landsbankann vera eins konar guð almáttugan, sem ætti sjálfur að skoða eigin sök.
Hverju barni hlýtur að vera ljóst, að slík vinnubrögð fengu ekki staðizt, – svo notuð séu hin fleygu orð.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið