Hvenær er ysta nöf?

Greinar

Menn átta sig yfirleitt ekki á hyldýpinu, fyrr en þeir eru komnir fram á yztu nöf. Ekki gagnar að vara þá við allmörgum skrefum innan við brúnina. Menn byrja að taka mark á hættunni, þegar hún er ekki lengur spádómur, heldur raunveruleiki, sem þeir standa andspænis og geta horft á.

Í þessu felst einn helzti vandinn við stjórn efnahagsmála í lýðræðisríkjum. Oftast er tómt mál að tala um, hvort stjórnvöld grípi of seint eða nógu snemma í taumana, þegar hætta er á ferðum í efnahagsmálum. Staðreyndin er nefnilega sú, að hættan verður að vera komin á alvarlegt stig, til þess að almenningur sætti sig við harkalegar gagnaðgerðir.

Stjórnvöld magna að vísu vandann með hræðslu sinni við almenning. Yfirleitt reyna þau í lengstu lög að halda upplýsingum frá fólki af ótta við, að vitneskja almennings bindi hendur stjórnvalda. Eitt dæmi um þetta er, að núverandi ríkisstjórn hefur þrátt fyrir gefin loforð ekki fengizt til að láta fólki í té ítarlegar upplýsingar um efnahagslausnir, sem hafnað var, þegar gengislækkunin var valin.

Ef almenningur hefði séð ógnir uppbótakerfisins, er líklegt, að hyldýpið hefði sézt betur en raun varð á og fólk hefði fremur sannfærzt um, að harkalegar aðgerðir væru nauðsynlegar. En fólkinu í landinu var ekki treyst frekar en fyrri daginn og m.a. þess vegna er það byrjað að mótmæla þeim björgunaraðgerðum, sem valdar voru.

Telja mætti, að þjóðin sé komin út á yztu nöf, þegar hún sér, að gjaldeyrisvarasjóðurinn er þrotinn og að útflutningsatvinnuvegirnir eru að stöðvast. Við slíkar aðstæður ætti hún að sjá, að lifað hefur verið um efni fram í of langan tíma og að komið er að skuldadögunum.

Samt er skilningurinn á hyldýpinu ekki meiri en svo, að leiðarahöfundar stjórnarandstöðublaðanna og ýmsir félagsmálaberserkir telja sig hafa hljómgrunn fyrir svo áköf neyðaróp gegn björgunaraðgerðunum, að ætla mætti, að þeir væru að verða hungurmorða og að bráður mannfellir væri búinn láglaunafólki í landinu, ef ráðagerðir ríkisstjórnarinnar næðu fram að ganga.

Við eigum þó að hafa skynsemi til að vita, að lífskjörin í landinu eru nógu góð til þess, að sú lífskjararýrnun, sem gengislækkunin veldur, flytur lífskjörin ekki lengra aftur á bak en á það stig, sem þau voru árið 1972. Og þóttu þau lífskjör þá vera ágæt miðað við fyrri ár.

Þar á ofan hefur margoft verið sagt, að verið sé að undirbúa ráðstafanir, sem létti láglaunafólki og elli-og örorkulífeyrisþegum þær byrðar, sem björgunaraðgerðirnar í efnahagsmálum leggja á þjóðina.

Næstu vikur skera úr um, hvort þjóðin var komin nægilega langt út á yztu nöf til að sjá niður í botn á gljúfrinu og átta sig á alvöru ástandsins.

Það kemur m.a. í ljós af umræðum á Alþingi og viðræðum um kjaramál, hvort ríkisstjórnin hefði átt að bíða eftir atvinnuleysinu til að fá hljómgrunn fyrir björgunaraðgerðir sínar.

Jónas Kristjánsson

Vísir