Hvað ver varnarliðið?

Greinar

Athyglisvert er, hve mikils og almenns stuðnings njóta þeir Suðurnesjamenn, sem lokuðu um helgina vegunum að hliðarstöðvum varnarliðsins á Reykjanesskaga. Þeim hefur borizt stöðugur straumur stuðningsyfirlýsinga frá samtökum og hópum um allt land.

Þetta er dæmigert um stemninguna í landinu um þessar mundir. Brezka rlkisstjórnin hefur gengið svo gersamlega fram af mönnum, að þeir eru reiðubúnir til að endurskoða afstöðuna til varnarliðsins og Atlantshafsbandalagsins.

Óneitanlega er það sérkennilegt að vera í varnarbandalagi við ríki, sem hefur sagt okkur óbeint stríð á hendur. Og ekki síður sérkennilegt er að hafa hér varnarlið, sem ekki getur aðstoðað okkur við að verja landhelgisgæzluskipin árásum.

Varnarliðið hefur það sér til afsökunar, að það hefur ekki verið beðið neins i þessum efnum. Frumkvæðið verður vitanlega að koma frá ríkisstjórninni. Ósk frá henni um raunhæfar varnir mundi sennilega koma varnarliðinu í nokkurn vanda, en á það hefur ekki reynt enn.

Rikisstjórnin hefur farið ákaflega hægt í sakirnar í þorskastríðinu. Þrátt fyrir ítrekaðar ásiglingar Breta og tilraunir þeirra til ásiglinga er hún ekki komin lengra en að kæra Breta fyrir Atlantshafsbandalaginu og hóta stjórnmálaslitum við Breta.

Þeir hafa látið þessa hótun sem vind um eyru þjóta og halda uppteknum hætti. Ríkisstjórnin kemst því ekki hjá því að kalla sendiberra okkar heim frá London og reka sendiherra Breta heim. Bf hún gerir þetta ekki, er hún orðin ber að því að hafa slegið fram innihaldslausri hótun.

Það er óneitanlega saga til næsta bæjar, er eitt ríki varnarbandalags slítur stjórnmálasambandi við annað ríki þess. Einnig væri það í frásögur færandi, ef varnarlið ríkis reyndi ekki að verja landamæri þess þrátt fyrir ósk löglegrar ríkisstjórnar.

Ekkert er því til fyrirstöðu, að ríkisstjórnin snúi sér nú til varnarliðsins og kvarti yfir því, að það sé að eyða tíma í að mæla út kafbáta í fimm hundruð mílna fjarlægð, meðan siglt er vísvitandi á íslenzk varðskip innan þriggja mílna frá landi.

Jafnframt getur ríkisstjórnin, ef hún vill, óskað eftir því, að varnarliðið aðstoði landhelgisgæzluna við að reka ófögnuð Breta af höndum okkur. Það mundi þá reyna í fyrsta skiptið á varnarliðið.

En boltinn er enn i höndum ríkisstjórnarinnar. Með aðgerðum sínum hjá Atlantshafsbandalaginu og hótuninni um stjórnmálaslit hefur hún gert tilraun til að haltra á eftir almenningsálitinu hér heima. En hún verður að gera betur, ef hún vill halda trausti fólks.

Annars á hún það á hættu að frumkvæði flytjist i hendur hópa áhugamanna. Suðurnesjamennirnir fyrrnefndu hafa boðað lokun aðalhliða Keflavíkurflugvallar á morgun. Þeir hafa vafalaust stuðning meirihluta þjóðarinnar til þess. En hvað gerir þá rikísstjórnin?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið