Nokkur áhöld eru um, hvort mönnum þykir verra, fyrirsátin fyrir varðskipinu Þór og ásigingarnar á það fyrir rúmum mánuði eða smáfiskadráp brezku togaranna á alfriðuðu svæði um þessar mundir. Báðar aðgerðirnar sýna, hve hörð og ákveðin brezka ríkisstjórnin er í landhelgismálinu. Yfir gerðum hennar svífur andi nýlendumajóra á borð við Hattersley aðstoðarutanríkisráðherra.
Þessi harða stjórn er að tefla við veiklundaða og tvístígandi ríkisstjórn okkar. Hún þorir ekki að gera neitt, sem gæti lyft augabrúnum stórmenna úti í heimi. Hún slær úr og í, svo að enginn treystir henni, hvorki íslenzkir kjósendur né erlendir viðsemjendur.
Þórsmálið og veiðarnar á friðaða svæðinu eru hvort tveggja miklu meira en nægileg ástæða til að slíta stjórnmálasambandi við brezku ríkisstjórnina.Enda neyddist ríkisstjórn okkar eftir mikið japl og jaml og fuður að fallast á kröfu þjóðarinnar um stjórnmálaslit, þegar árásin hafði verið gerð á Þór.
Ríkisstjórnin fann sér hins vegar ótal ástæður til að fresta framkvæmd stjórnmálaslitanna. Og núna æmtir hún hvorki né skræmtir meðan Bretar veiða á alfriðuðu svæði og hafa 35-45 togara til að skarka í smáfiskinum, sjálfri efnahagsframtíð Íslendinga. Stjórnarblöðin eru jafnvel komin með vangaveltur um, að stjórnmálaslit séu til lítils gagns.
Slíkar vangaveltur gátu komið til greina á sínum tíma, þegar stjórnmálaslitin voru upphaflega ákveðin. En núna eru þær aðeins merki um veika lund og lélega taflmennsku. Hið sama gildir um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um, að hún muni hafa samráð við Alþingi um stjórnmálaslit. Hún er löngu búin að ráðfæra sig við Alþingi og þarf ekki að endurtaka það.
Afleiðingin er sú, að brezka ríkisstjórnin telur sig eiga alls kostar við þá íslenzku. Framferði hennar ber þessa greinileg merki. Hún telur viðsemjendur sína á Íslandi vera sætabrauðsdrengi, sem ekki þori að opna neinar línur til sóknar á taflborði landhelgismálsins.
Við okkur blasir nú sú staðreynd, að ein af bandalagsþjóðum okkar í Atlantshafsbandalaginu beitir herskipum sínum til að eyða þeim smáfiski, sem eftir nokkur ár á að verða undirstaða efnahagslífs okkar. Þessa staðreynd skilur öll þjóðin nema ríkisstjórnin og nokkrir helztu jámenn hennar.
Enn einu sinn i lYerður hér þess krafizt, að ríkisstjórnin manni sig upp og slíti stjórnmálasambandi við Breta. Enn einu sinni verður hér þess krafizt, að ríkisstjórnin manni sig upp og hefjist handa svo um muni á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, til dæmis með því að neita að sitja þar fundi með Bretum og með því að snúa sér beint til varnarliðsins með beiðni um aðstoð.
Því miður er slæmur þefur af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Líklegast er, að hún búi yfir einhverju, sem hún hefur ekki þorað að segja þjóðinni . Það er því nauðsynlegra en nokkru sinni áður, að þjóðin veiti ríkisstjórninni nákvæmt og hart aðhald, ef það gæti orðið til þess að forða henni frá því að verða skák og mát í taflinu við Wilson og Luns.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið