Hún iðrast ekki.

Greinar

Nýjustu tölur Þjóðhagstofnunar um þjóðarbúskapinn á þessu ári sýna mjög skýrt, hvaða innlendur aðili á mesta sökina á verðbólgu ársins. Sumpart er verðbólgan af erlendum toga spunnin, en sá hluti er tiltölulega lítill. Að verulegu leyti er vandinn heimatilbúinn eins og oftast endranær.

Ekki eru það atvinnuvegirnir, sem hafa valdið verðbólgunni með óhóflegri fjárfestingu. Enginn þáttur þjóðarbúskaparins hefur dregizt meira saman á árinu en einmitt fjárfesting atvinnuveganna. Þjóðhagsstofnunin áætlar, að þessi samdráttur muni nema 10% á árinu í heild.

Ekki eru það launþegarnir, sem hafa valdið verðbólgunni með óhóflegum kauphækkunum. Bezti mælikvarðinn á lífskjör almennings er einkaneyzlan og hún hefur dregizt saman töluvert meira en þjóðartekjurnar hafa gert. Þjóðhagsstofnunin áætlar, að samdráttur einkaneyzlunnar muni nema 11% á árinu í heild.

Ekki eru það húsbyggjendur, sem hafa valdið verðbólgunni með óhóflegri athafnasemi á árinu. Byggingar íbúðarhúsa hafa dregizt saman. Að vísu er sá samdráttur ekki alveg eins mikill og 8% rýrnun þjóðartekna á árinu. Þjóðhagsstofnunin áætlar, að samdráttur bygginga íbúðarhúsa muni nema 5% á árinu í heild.

Það eru engir aðrir en ríkið og ríkisstjórnin, sem hafa staðið í fylkingarbrjósti verðbólgunn ar, með góðum stuðningi þingmanna allra flokka. Á þessum tíma minnkandi þjóðartekna hefur ríkið haldið áfram að auka umsvif sín. Þjóðhagsstofnunin áætlar, að ríkisreksturinn, er á hagfræðingamáli heitir samneyzla, muni aukast um 2% á árinu í heild, og að opinberar framkvæmdir muni aukast um hvorki meira né minna en 19% á sama tíma.

Nú mætti ætla í ljósi reynslunnar, að ríkisstjórnin mundi sjá að sér og reyna að hætta að slá út næstu ríkisstjórn á undan í kæruleysi í meðferð fjármuna.

Fjárlagafrumvarpið hefur lengi verið í meðförum Alþingis. Þjóðhagsstofnunin hefur spáð fyrir áhrifum frumvarpsins á skiptingu þjóðartekna á næsta ári. Í þeim tölum kemur fram, að ríkisstjórnin hyggst láta aðra um að vera í fylkingarbrjósti viðnáms við verðbólgu.

Þjóðhagsstofnunin spáir því, að samneyzlan muni haldast óbreytt á næsta ári og að opinberar framkvæmdir muni aðeins dragast saman um 5%. Einkaneyzlan á að haldast óbreytt, enda er ekki meira leggjandí á launþega en þegar hefur verið gert. Það eru atvinnuvegirnir, sem eiga að draga saman seglin á næsta ári samkvæmt tölum stofnunarinnar, sem spá 14% samdrætti í fjárfestingu þeirra.

Sanngjarnara og eðlilegra hefði verið að draga úr þeim þáttum þjóðarbúskaparins, sem ekki tóku þátt í samdrætti þessa árs, það er samneyzlunni og opinberum framkvæmdum. Það er hart fyrir atvinnuvegina að sæta 14% samdrætti fjáfestingar til viðbótar 10% samdrætti á þessu ári. Og það er hart fyrir launþega að komast ekki upp úr tekjulægðinni, sem hefur myndazt á þessu ári.

En þessum aðilum þarf að fórna, svo að dýrð ríkisins megi standa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið