“Flekkótt” er ekki rétta orðið um hina nýju skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um hæfilega veiði á þessu ári. Hafi fyrsta fræga skýrslan af þessu tagi átt skilið að heita “svarta skýrslan”, má nefna hina nýju skýrslu “kolbikasvarta”.
Ár eftir ár sígur á ógæfuhliðina, þrátt fyrir brottrekstur útlendinga úr fiskveiðilögsögunni. Ár eftir ár mokum við upp sjálfu útsæðinu. Hrygningarstofn þorsks komst í fyrra niður i 165 þúsund tonn. Aldrei áður hefur hann verið jafnlítill.
Í fyrra vildu fiskifræðingar, að veidd yrðu 270 þúsund tonn af þorski á árinu. Eins og áður vildu útgerðarmenn fara að ráðum þeirra og báðu stjórnvöld um sanngjarnar reglur um takmörkun. Eins og áður gerðu stjórnvöld of lítið of seint.
Afleiðingin var sú, að þorskaflinn fór upp í 330 þúsund tonn, langt upp fyrir hættumörk. Hinum sterku árgöngum frá 1973 og 1976 var mokað upp, sumpart í gúanó. Á netaveiðum fóru 30% í annan flokk og 20% í þriðja flokk.
Í fyrra var vandinn hinn sami og árin þar á undan. Við höfðum heybrækur í ríkisstjórn. Þær þorðu ekki að gera það, sem allir málsaðilar vissu, að þurfti að gera.
Nú höfum við nýja ríkisstjórn. Engin sérstök ástæða er til að bera meira traust til hennar en hinnar fyrri. En hún er þó eina vonin, sem við höfum nú á elleftu stund.
Árið 1979 ræður úrslitum um endanlegt hrun þorskstofnsins. Í þetta sinn er enn erfiðara að taka málið föstum tökum en það var í fyrra, hittifyrra og árið þar á undan. Svigrúmið hefur minnkað með hverju árinu. Dæmi, sem áður var unnt að leysa utan ríkissjóðs, verður nú aðeins leyst innan rikissjóðs.
Vertíðin er góð um þessar mundir. Bátaflotinn er almennt kominn með blýteina í veiðarfærin og heldur uppi harðri samkeppni við skuttogarana. Það er alveg hægt að búast við, að hámarksaflinn verði búinn um eða rétt fyrir mitt ár.
Hvað tekur þá við? Á að leggja öllum þorskveiðiflotanum? Þetta er ekkert smáræðis vandamál, jafnvel þótt nú þegar verði gripið til strangari takmarkana, er treint geti þorskveiðina fram eftir árinu.
Fiskifræðingarnir hafa undanfarin ár reynzt hafa rétt fyrir sér í hinum árlegu aðvörunum. Nú hafa þeir lagt til samdrátt í þorskveiðum, sem nemur ársafla 20 skuttogara. Hvaða 20 togurum ætti að leggja?
Kák undanfarinna ára hefur leitt til þess, að afli á sóknareiningu hefur minnkað. Sífellt fleiri skip skarka í sífellt minni afla. Kostnaður í olíu og mannskap eykst á hvern dreginn þorsk.
Áratugum saman voru þorskveiðin og síldveiðin sú stóriðja, sem þjóðlífið byggðist á. Þaðan flæddi fjármagnið um allt Ísland og bjó til nútímaríki á þessari afskekktu eyju.
þessi tími er nú liðinn. Framleiðni í útgerð hefur hrapað. Engin atvinnugrein er lengur til að halda uppi þeim lífskjörum, sem við höfum vanið okkur á. Með róttækum ráðstöfunum í ár má breyta þessu.
Ef við sættum okkur við 250 þúsund tonna þorskafla í ár og 270 þúsund tonna á næsta ári, getum við smám saman komið hrygningarstofninum upp í 5OO þúsund lestir árið 1983. Þá getur útgerðin aftur orðið stóriðja Íslands.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið