Ríkisstjórninni tókst nokkuð að rétta hlut sinn í vantraustsumræðunum í fyrri viku . Það sat eftir í mörgum áheyrendum, að líklega væri ástandið enn verra, ef stjórnarandstaðan væri við völd. Þótt ríkisstjórnin væri vantrausts verð, væri stjórnarandstaðan þess ekki umkomin að amast við henni.
Fyrir vantraustsumræðurnar hafði ríkisstjórnin lagað verulega stöðu sína í landhelgismálinu með því að slíta stjórnmálasambandi við brezku stjórnina. Að vísu geta stjórnarandstæðingar og mikill fjöldi stuðningsmanna stjórnarinnar minnzt þess, hversu tímafrekt og erfitt var að aka stjórninni út í slitin á stjórnmálasambandinu.
Menn hafa auðvitað enn sínar grunsemdir um ódugnað ríkisstjórnarinnar í þessu máli. En tíminn verður að leiða í ljós, hvort þær grunsemdir eiga rétt á sér. Og vantrauststillagan kom einmitt fram á þeim tíma, er ríkisstjórnin hafði þó slitið stjórnmálasambandinu og hætt tilraunum til samkomulags við brezku stjórnina. Á þessu stigi málsins er því staðan í þorskastríðinu ekki tilefni vantrausts á ríkisstjórnina.
Talsmönnum ríkisstjórnarinnar tókst í umræðunum um vantraustið að benda á, að stjórnarandstaðan hefur harðlega gagnrýnt, að ekki skuli hafa verið ráðizt í margvíslegar opinberar framkvæmdir og aukinn ríkisrekstur á mörgum sviðum. Það er nefnilega staðreynd, að stjórnarandstaðan er ekki rétti aðilinn til að kvarta um meðferð ríkisstjórnarinnar á efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins.
Eigi að síður er frammistaða ríkisstjórnarinnar á þessum sviðum algerlcga forkastanleg. Skýr rök hafa verið leidd að því, að ein helzta forsenda hins ömurlega ástands í efnahagsmálum er óstjórnin á fjármálum ríkisins. Hlutur opinberrar fjárfestingar og samneyzlunnar cða ríkisrekstrarins í þjóðartekjunum hefur aukizt, þrátt fyrir mikinn samdrátt þjóðartekna. Sá samdráttur hefur því komið með meira en fullum þunga niður á lífskjörum almennings og greiðslugetu atvinnuveganna.
Loks hefur talsmönnum ríkisstjórnarinnar tekizt að benda á, að stjórnarandstaðan hefur reynt að nota andrúmsloft allsherjarverkfallsins til að fá heppilega umgjörð um vantrauststillöguna. Í því sambandi er þó nauðsynlegt að benda á, að flokkspólitískt andrúmsloft hefur ekki ríkt í sjálfum viðræðunum um kjarasamninga. Þar hafa fulltrúar launþesa staðið á faglegum grunni en ekki pólitískum.
Í umræðunum um vantraustið tókst ríkisstjórninni ekki að þvo af sér ábyrgðina á erfiðleikunum í kjarasamningunum. Sú staðreynd blífur, að ríkisstjórnin notfærði sér ekki tillögur launþega og vinnuveitenda um lækkun ríkisútgjalda og skatta. Þar missti hún af gullvægu tækifæri til að bjarga frá efnahagsöngþveiti með víðtækri samstöðu í þjóðfélaginu.
Í heild má segja, að hvorki ríkisstjórn né stjórnarandstaða hafi riðið feitum hesti frá vantraustsumræðunum. En hlutur ríkisstjórnarinnar var þó illskárri að því leyti, að talsmönnum hennar tókst að vekja rökstuddan grun um, að stjórnarandstaðan mundi hafa staðið sig enn verr.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið