Forvígismenn útgerðarmanna eru ekki lengur samstíga fiskifræðingum í mati á veiðiþoli fiskistofna. Jafnframt eru þeir byrjaðir á skipulegu andófi gegn hugmyndum hagfræðinga um sölu veiðileyfa eða auðlindaskatt í sjávarútvegi.
Ekki er ljóst, hvort þessi afstaða byggist á trúnaðarbresti milli útgerðarmanna og fræðimanna eða hvort hún felur í sér, að skammtímahagsmunir séu orðnir dýrmætari en langtímahagsmunir. Alténd er afstaðan mikið áhyggjuefni.
Til skamms tíma tóku forustumenn útgerðarinnar eindregið undir hugmyndir fiskifræðinga um aukna friðun, einkum þorsksins. Kristján Ragnarsson, formaður Landssambands íslenzkra útvegsmanna, gekk fram fyrir skjöldu og hlaut lof fyrir framsýni, bæði hér í Dagblaðinu og víðar.
Í nokkur ár hafa útgerðarmenn verið reiðubúnir til að hafa meiri hemil á veiðunum en raun varð á. En þá var það ríkisvaldið, sem ekki treysti sér til hinna ströngu aðgerða, og lét sér nægja kák af ýmsu tagi. Útgerðarmenn verða ekki sakaðir um þá stefnu.
Nú bregður hins vegar svo við, að forustumenn útgerðarmanna efast opinberlega um, að mat fiskifræðinga sé rétt. Þegar fiskifræðingar mæla með 250 þúsund tonna þorskveiði og sjávarútvegsráðherra mælir með 285 þúsund tonna þorskveiði, tala útgerðarmenn um, að veiðin þurfi að fara yfir 300 þúsund tonn.
Góð aflahrota í sumar afsannar ekki fyrri kenningar fiskifræðinga. Þessi aflahrota byggðist á útsæði, ókynþroska fiski. Fyrir bragðið helzt hrygningarstofninn enn í lágmarki við hættumörkin. Og nú eru útgerðarmenn meira að segja farnir að halda því fram, að stærð hrygningarstofns skipti ekki máli.
Með slíku hugarfari er áreiðanlega langt í það markmið, að 500 þúsund tonn náist af þorski upp úr sjó á ári, að undangenginni áralangri friðun útsæðisins. Skammtímasjónarmið hafa tekið við af langtímasjónarmiðum hjá forvígismönnum útgerðarinnar.
Auðvitað geta fiskifræðingar gert mistök. Og sé um mistök að ræða, er skárra, að þau séu í átt til aukinnar íhaldssemi en aukins frjálslyndis. Slík mistök er nefnilega auðveldara að leiðrétta en hin, sem leiða til ofveiði. Mestu máli skiptir þó, að ekkert hefur gerzt, er réttlæti vantrú útgerðarmanna á fiskifræðingum.
Hin nýja skammsýni á þessu sviði virðist fara saman við skipulega herferð sömu manna gegn hugmyndum um sölu veiðileyfa eða auðlindaskatt, sem nokkrir hagfræðingar og iðnrekendur hafa sett fram, hver með sínum hætti.
Þessar hugmyndir stefna að því, að útgerðin nái leyfilegum hámarksafla með sem minnstri sókn, minnstri fyrirhöfn. Þær stefna að því að beita markaðslögmálum á þessu sviði, fremur en öðrum stjórntækjum, svo sem kvótum, lokun veiðisvæða og tímabundnu veiðibanni.
Hugmyndir, sem stefna að minni olíunotkun, svo og fækkun skipa og sjómanna, miða um leið að aukinni arðsemi í fiskveiðum. Þetta vilja útgerðarmenn ekki hlusta á og sjá í þess stað ofsjónum yfir orðinu “auð- lindaskattur”.
Það getur vel verið ofmat sumra hagfræðinga, að flotinn sé helmingi of stór. Að minnsta kosti er auðvelt að draga slíkt mat i efa. En flotinn er þó of stór, hversu miklu sem munar. Og í því felst peningasóun.
Fræðimenn hafa fjallað ýtarlega um mörg þau atriði, sem andófsmenn útgerðar fetta fingur út í. Útgerðarmenn ættu nú aftur að taka upp langtímasjónarmið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið