Allt frá dögum de Gaulle hafa frönsk stjórnvöld bakað sér orð fyrir óvenju þrönga og opinskáa eiginhagsmunastefnu í utanríkismálum. Oftast hefur þetta komið fram í samstarfinu innan Efnahagsbandalagsins, en einnig á fjölmörgum öðrum sviðum. Ísrael hefur til dæmis nokkrum sinnum fengið að kenna á tilraunum franskra stjórnvalda til að viðra sig upp við hin auðugu og öflugu olíuríki Arabalandanna.
Frönsk stjórnvöld hafa hvorki spurt um skömm né heiður, þegar slíkir hagsmunir eru í veði. Þau hafa síður en flest önnur stjórnvöld á Vesturlöndum gætt þess að halda sig innan fastra siðgæðismarka í eiginhagsmunastreitunni. Það er því engin furða, þótt Yigal Allon, utanríkisráðherra Ísraels, bregði nú Frökkum um hugleysi og ódrenglyndi, er þeir hafa látið lausan Abu Daoud, skæruliðaforingja frá Palestínu, þvert ofan í alþjóðasamninga um hermdarverkamenn.
Talið er líklegt, að Abu Daoud hafi verið leiðtogi glæpamanna, sem myrtu ellefu íþróttamenn frá Ísrael á ólympíuleikunum í München árið 1972. Hann virðist fyrir tilviljun hafa verið handtekinn í Frakklandi vegna vegabréfsskorts. Ef tækifærið hefði verið notað til að framselja hann annaðhvort stjórnvöldum í Bæjaralandi eða Ísrael, væri unnt að kanna sök hans.
Morðin á ólympíuleikunum eru meðal hins svívirðilegasta á ferli hryðjuverkamanna nútímans. Hin snöru handtök franskra yfirvalda við að sleppa þeim manni, sem talinn er hafa stjórnað þessum morðum, eru svo fyrirlitleg, að þeim verður vart með orðum lýst.
Vesturlönd hafa á undanförnum árum náð nokkrum árangri í baráttunni gegn hryðjuverkum. Einkum hefur samstarf flugfélaga og flugmálayfirvalda verið áhrifaríkt. Hins vegar hlýtur framkoma á borð við þá, sem frönsk stjórnvöld hafa nú sýnt, að hvetja til aukinna aðgerða hermdarverkamanna, er þeir sjá, að jafnvel á Vesturlöndum þurfa þeir ekki að standa reikningsskap gerða sinna.
Morðfýsn er því miður útbreidd meðal mannkynsins. Svo er nú komið, að stjórnmálahreyfingar gefa mönnum góð tækifæri til að sinna þeirri fýsn. Í sumum þessara hreyfinga er talið sjálfsagt að myrða Pétur og Pál í krafti hugsjónarinnar, enda sé enginn maður hlutlaus í heimi nútímans. Slíkar hreyfingar eru náttúrlega upplagður griðastaður fyrir hættulega geðsjúklinga.
Frakkar eru ekki allir undir þá sök seldir að stuðla að þessari óheillaþróun. Ósennilegt er, að Frakkar almennt styðji afstöðu stjórnvalda sinna í máli Daouds, þótt Gyðingahatur sé óneitanlega rótgróið í Frakklandi. Segja má, að yfirvöld í Bæjaralandi hafi ekki verið að flýta sér að krefjast framsals. Og meðal allra þjóða Vesturlanda er í sumum hópum litið upp til glæpamanna, ef þeir fremja illvirki sín undir pólitískri hugsjónaskikkju.
Frönsk stjórnvöld eru ber að hugleysi og ódrenglyndi. En Vesturlandabúar aðrir eru ekki heldur saklausir í þessum efnum og eiga að láta frelsun Daouds sér að kenningu verða.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið