Hryllingssagan er lesin í laumi

Greinar

Enginn æsireyfari á jólamarkaðnum stenzt samjöfnuð við hrollvekju þá, sem íslenzkir ráðherrar hafa nú á náttborðum sínum. Ýmsir kaflar í henni eru til þess fallnir að fá hárin til að rísa á höfði manna. Þessi hrollvekja væri raunar tilvalin metsölubók, ef ríkisstjórnin hefði ekki séð af hyggjuviti sínu, að þjóðinni væri slík lesning ekki holl. Þess vegna er hún leyniskjal fyrir örfáa útvalda.

Þetta er skýrsla um efnahagsmál Íslands, samin af Rolf Evensen, einum helzta sérfræðingi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hann hefur í tvo áratugi fylgzt rækilega með íslenzkum efnahagsmálum og sat nýlega á fundum með ráðherrum okkar og embættismönnum. Skýrslan, sem hann samdi í kjölfar þessara viðræðna, fjallar annars vegar um öngþveitið hjá okkur í dag og hins vegar um leiðir út úr myrkrinu.

Evensen varar ríkisstjórnina við og segir, að “hlutirnir muni ekki halda áfram að bjargast af sjálfu sér eins og þeir gerðu á árinu 1973”. Á þessu ári hafi ríkisstjórnin ekki horfzt í augu við vandann, en verðhækkanir á útflutningsafurðum okkar og miklir lánamöguleikar erlendis hafi hindrað veruleg vandræði. Hann segir einnig, að engin efnahagsstefna sé notuð í landinu um þessar mundir og að óðaverðbólgan sé af innlendum toga spunnin að mestu leyti, en ekki innflutt frá útlöndum.

Menn gætu haldið, að Evensen væri að tala um stjórnarfarið á Haiti eða í Úganda, svo ömurleg er lýsing hans. En við verðum að bíta í það súra epli, að hann er að tala um óskabarn okkar, íslenzka lýðveldið. Það erum við, sem sitjum í súpunni, er hann lýsir svona umbúðalaust.

En Evensen lætur sér ekki nægja að hræða ráðherrana. Hann kemur með ýmsar tillögur til úrbóta. Margar þeirra eru mjög harðskeyttar, í samræmi við gömlu regluna, að með illu skuli illt út reka. Og því miður læðist að mönnum grunur um, að ríkisstjórnin hafi ekki bein í nefinu til að framkvæmda neitt af tillögum hans.

Hann óskar eftir hófsamlegri niðurstöðu á þeim kjarasamningum, sem nú standa yfir. Hann vill afnema vísitölubindingu launa að verulegu leyti. Hann vill lækka aflahlut sjómanna. Hann vill, að ríkisstjórnin haldi aftur af eyðslu sinni,skeri niður framkvæmdir sínar og starfsmannafjölda. Hann vill, að vextir verði enn hækkaðir. Hann telur gengislækkun koma til greina. Og hann hvetur ríkisstjórnina til að fara nú að byrja á því að velja verkefni eftir þjóðhagslegu mikilvægi þeirra.

Takið eftir því, að Evensen er ekki að mæla með smáaðgerðum hér og þar í efnahagslífinu, heldur stórfelldum uppskurði á flestum sviðum þess. Hann er ekki að fjalla um lausn á vandræðaástandi, heldur algeru neyðarástandi.

Forsætisráðherra okkar þarf því góðar taugar, þegar hann tekur þessa jólalesningu upp af náttborði sínu.

Jónas Kristjánsson

Vísir