Hröðum orkusókninni

Greinar

Ef Alþingi samþykkir hið nýja stjórnarfrumvarp um byggingu og rekstur málmblendiverksmiðju, má reikna með, að verksmiðjan geti tekið til starfa eftir tvö-þrjú ár og kaupi tæplega helming af rafmagninu, sem framleitt verður í Sigölduveri. Og allar horfur eru á, að Alþingi samþykki frumvarpið með ríflegum meirihluta atkvæða.

Þar með er eitt skrefið enn stigið í hægfara stóriðjuþróun á Íslandi. Vonandi verður þetta skref fyrirboði þess, að sú þróun verði hraðari á næstu árum. Íslenzka þjóðarbúið þarf að verða fjölbreyttara en það er nú, og aukin stóriðja er eitt af því, sem helzt skortir.

Gert er ráð fyrir, að verksmiðjan kaupi um 68 megawött frá Sigöldu, sumpart sem forgangsorku og sumpart sem afgangsorku. Verður forgangsorkan keypt á 9,5-10 mill, en meðalverðið verður 5-6,2 mill. Þetta tiltölulega háa verð endurspeglar þá staðreynd olíukreppunnar, að orka er nú í meiri metum fjárhagslega en áður var. Þessi viðskipti munu tryggja, að Sigölduvirkjun verði mjög arðbær og leggja grundvöllinn að frekari orkuöflun hér á landi.

Verksmiðjan sjálf, sem verður að meirihluta í eigu íslenzka ríkisins, verður einnig mjög arðbær, ef áætlanir standast. Gert er ráð fyrir, að arðsemi hennar nemi hvorki meira né minna en 17,4%, þannig að fljótlega ætti að safnast fé til frekari útþenslu í framleiðslu á málmblendi. Í heild má gera ráð fyrir, að hreinar gjaldeyristekjur af rekstri verksmiðjunnar og orkusölu til hennar nemi um 1,3 milljarði króna á ári.

Allt bendir til þess, að hér sé um mjög hagkvæma framkvæmd að ræða, enda hefur olíukreppan leitt til þess, að afurðir orkufreks iðnaðar eru mun verðmætari en áður var. Við þurfum nú að nota tækifærið til frekari sóknar á þessum sviðum og nýta miklu meira af þeirri gífurlegu orku, sem liggur ónotuð í fallvötnum og iðrum landsins.

Við þurfum á næstu mánuðum að móta nýja stóriðjuáætlun og dreifa bæði orkuverum og verksmiðjum í sem flesta landshluta. Kominn er tími til að vinna að stórvirkjun á Norðurlandi og síðan á Austurlandi.

Þessi uppbygging mundi hafa þau hliðaráhrif að tryggja orkudreifingu til almennrar notkunar á þessum svæðum og eyða því ófremdarástandi, sem ríkt hefur í vetur í orkudreifingunni.

Höfuðmarkmiðið í þessari þróun er, að Íslendingar eigi sjálfir orkuverin og reki þau, enda höfum við öðlazt mikla reynslu á því sviði. Okkur mun vafalítið reynast auðvelt að afla lánsfjár til byggingar orkuveranna, ef tryggð verða föst stóriðjuviðskipti.

Sum iðjuverin getum við átt að meirihluta, en önnur geta erlend fyrirtæki átt að öllu leyti. Þetta fer eftir eðli vinnslunnar í hverju iðjuveri og möguleikum okkar á að afla lánsfjár til fjárfestingar í svo dýrum verksmiðjum, án þess að það dragi úr möguleikum okkar til annarra nytsamlegra hluta.

Við skulum í öllum tilvikum gæta þess, að stóriðjan leiði ekki til mengunar, en að öðru leyti skulum við láta úrtölur sem vind um eyru þjóta og hefja stórsókn á þessu sviði nútíma framleiðslu. Við skulum gera orkuna að enn meiri auðlind en fiskimiðin okkar.

Jónas Kristjánsson

Vísir