Hálfur þingflokkur Alþýðuflokksins hefur lagt fram frumvarp um, að Seðlabankanum verði bannað að ákveða vexti lægri en sem nemur verðbólgu. Þar með hefur hálfur þingflokkurinn lýst yfir andstöðu við vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar.
Hinir sjö þingmenn Alþýðuflokksins, með Vilmund Gylfason í broddi fylkingar, eru ekki hinir einu, sem telja samræmi eiga að ríkja milli vaxta og verðbólgu. Magnús Kjartansson, fyrrum ráðherra Alþýðubandalagsins, hefur tekið í sama streng. Og Dagblaðið hefur hvað eftir annað haldið hinu sama fram.
Í greinargerð sjömenninganna segir m.a.: ” … auðveldasti vegurinn til þess að verða efnaður, hefur verið að skulda fjármagn”. Þetta er nákvæmlega hið sama og Magnús Kjartansson sagði nýlega í blaðagrein: “Leiðin til þess að komast yfir fjármuni á Íslandi er að skulda sem mesta fjármuni”.
Sjömenningarnir segja einnig: “Aðgangur að lánastofnunum ræður í raun meiru um það, hvort fólk og fyrirtæki komast vel af heldur en útkoma í kjarasamningum eða góður og slæmur rekstur fyrirtækja”.
Ennfremur: “Það er eindregin skoðun flutningsmanna, að hið neikvæða vaxtakerfi hafi breytt þeim stofnunum, sem eiga að vera til þess að lána fjármagn, úr því að vera útlánastofnanir og í það að vera hafta- og skömmtunarstofnanir, sem þar að auki starfa nær alfarið fyrir luktum dyrum og lúta enn fremur pólitísku valdi að mjög verulegu leyti.”
Sjömenningarnir gera sér grein fyrir, að raunvöxtum verður ekki komið á í einu vetfangi. Leggja þeir til, að markinu verði náð í áföngum á næstu tveimur árum.
Þeir gera sér líka grein fyrir, að raunvextir gætu skapað húsbyggjendum mikinn vanda. Vilja þeir því dreifa íbúðalánum á mun lengra tímabil en nú er gert.
Í þessu síðasta atriði felst veikasti hlekkur hugmynda sjömenninganna. Ungu fólki, sem er að byggja, duga ekki lágar afborganir, ef raunvextir einir saman eru langt umfram greiðslugetu. Sem dæmi má nefna, að raunvextir af tíu milljón króna skuld væru um eða yfir fimm milljón krónur á ári í núverandi verðbólgu.
Að vísu taka þingmennirnir sérstaklega fram, að þeir vilji ekki 50-60%’ vexti, heldur ætlist þeir til, að vextir og verðbólga mætist í mun lægri tölum. Raunar skortir útreikninga á þessari aðferðafræði og áhrifum hennar á einstaka þætti lánamála, svo sem húsnæðislán.
Sennilega er unnt að mæta vandamálum húsbyggjenda sem og annarra lántakenda með markvissri aðgreiningu vaxta og vísitölu, eins og Seðlabankinn er byrjaður að reyna. Vísitalan greiddist þá ekki árlega eins og vextir, heldur bættist við höfuðstólinn, sem greiddist niður á mun lengri tíma en nú.
Þessar athugasemdir skyggja ekki á þá staðreynd, að frumvarp sjömenninganna er einstaklega þarft og brýnt. Sennilega mundi engin ein aðferð efla fjárhagslegt jafnrétti og rýra fjárhagslega og stjórnmálalega spillingu í jafn ríkum mæli og einmitt innleiðing raunvaxta.
Hinir neikvæðu vextir, sem Íslendingar búa við, gera lánastofnanir að gjafaskömmtunarstofnunum. Þeir freista því stjórnmálamannanna að taka sér aukin völd í þessum stofnunum og að auka völd stofnananna. Þar með tryggja neikvæðu vextirnir, að stjórnmálaflokkarnir magna verðbólguna, sem mest þeir geta.
Raunvextir eru forsenda þess, að unnt sé að hreinsa til í þjóðfélaginu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið