Menn deila um, hvort þörf sé á opinberu verðlagseftirliti á sviðum, þar sem ríkir samkeppni. Um hitt eru allir sammála, að slíkt eftirlit er nauðsynlegt með fyrirtækjum eða stofnunum, sem njóta einokunar.
Ein af mörgum þverstæðum íslenzks þjóðfélags er, að illræmdasta einokunarstofnunin er undanþegin verðlagseftirliti. Það er Grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem getur hagað verðlagningu sinni eins og henni þóknast.
Dagblaðið hefur í haust rakið í nokkrum fréttum nýlegt dæmi um viðskiptahætti einokunarfyrirtækisins. Á grundvelli þeirra hafa Neytendasamtökin óskað eftir verðútreikningum Grænmetisverzlunarinnar, en verið neitað um þá.
Í september flutti Grænmetisverzlun landbúnaðarins inn danskar kartöflur á 1,20 danskar krónur kílóið, þegar markaðsverðið þar var 0,85 danskar krónur kílóið. Þessi óeðlilegu innkaup kostuðu íslenzka neytendur 2,5 milljónir króna.
Ekki hefur fundizt neinn danskur kartöflukaupmaður, sem íslenzka einokunin hafi leitað tilboða hjá, annar en Tborsen sá, er kartöflurnar seldi. Hann ætti ekki að njóta slíkra vildarkjara, þótt hann sé riddari fálkaorðunnar.
Sama dag og kartöflunum var skipað út til Íslands var skipað út í Danmörku annarri sendingu kartaflna í sama gæðaflokki til Færeyja. Verðið við skipshlið var 0,85 til Færeyja meðan það var 1,20 til Íslands.
Þar á ofan kom í ljós, að kartöflurnar til Færeyja voru heldur betri. Ekki bar á neinum sveppasjúkdómi í þeim eins og í kartöflunum, sem komu til Íslands. Forstjóri Grænmetisverzlunar ríkisins fetar því dyggilega í spor hörmangara.
En sagan er ekki öll sögð. Álagning einokunarinnar á þessar kartöflur er með eindæmum. Hún er 54% í stað 14,5%. Þar renna að óþörfu 8,5 milljónir króna úr vösum neytenda.
Einkafyrirtækjum er leyfð 14,5% álagning á hliðstæðar vörur. Er þá talinn með ýmis kostnaður, svo sem pökkun í smærri umbúðir. Grænmetisverzlunin fær hins vegar 37% álagningu, líklega af því að hún er svo illa rekin. En svo skammtar hún sér sjálf 54% álagningu án þess að spyrja kóng eða prest.
Þessi saga hefur verið rakin ítarlega á síðum Dagblaðsins. Öll tilsvör forstjóra einokunarfyrirtækisins hafa verið með svipuðum hætti og áður, þegar komizt hefur upp um óeðlilega viðskiptahætti þar á bæ.
Sérgrein Grænmetisverzlunarinnar í upplýsingamiðlun er að gefa stórlega ýktar tölur um verð á kartöflum í erlendum höfnum.
Hún hefur oft verið staðin að lygum af slíku tagi. Og hún hefur einnig verið staðin að öðrum lygum. Hún hefur haldið því fram, að útflutningsgjald hafi erlendis verið lagt á kartöflur til Íslands. Rannsókn Dagblaðsins leiddi í ljós, að þetta var lygi.
Hún hefur haldið því fram, að útflutningur væri ekki kleifur frá vissum löndum vegna kólóradóbjöllu. Rannsókn Dagblaðsins leiddi í ljós, að á sama tíma var hún að kaupa þaðan kartöflur.
Hún hefur haldið því fram, að nýjar erlendar kartöflur séu ekki fáanlegar allt árið. Rannsókn Dagblaðsins leiddi í ljós, að þetta var lygi.
Raunar er furðulegt, að stjórnmálaskúmar þessa lands skuli ekki vera búnir að skera þessa stofnun, sem nú hefur haft af neytendum rúmar 11 milljónir á aðeins einni kartöflusendingu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið