Hjörleifs-Krafla.

Greinar

Undanfarna daga hefur orkuverið við Grímsá aðeins verið keyrt hluta úr degi vegna vatnsskorts. Á sama tíma hafa orkuverin við Lagarfljót og Smyrlabjargaá algerlega stöðvazt vegna vatnsþurrðar. Og þetta eru vatnsorkuverin þrjú á Austurlandi.

Ekki er nóg að telja landsfjórðung heppilegan til virkjunar vatnsorku vegna lítillar eldgosa- og jarðskjálftahættu á svæðinu. Einnig hlýtur að vera vinsælt, að vatn sé fáanlegt í hverfla orkuveranna árið um kring.

Í ljósi einstaklega slæmrar reynslu af byggingu orkuvera á Austurlandi er ósköp eðlilegt, að menn sperri eyrun, þegar tveir vísindamenn telja, að í tímaröð eigi að taka svonefnda Suðausturlínu fram yfir orkuver við Bessastaðaá.

Vísindamennirnir tveir hafa engra hagsmuna að gæta. Þeir eru ekki í framboði í neinu kjördæmi. Og þeir eru ekki að útvega kjósendum í neinum landshluta atvinnu við orkuframkvæmdir. Hið sama er ekki hægt að segja um suma aðra, sem tekið hafa til máls.

Við grunum andmælendur þeirra um að hafa pólitískra og annarra hagsmuna að gæta. Alveg eins og Eysteinn Jónsson var grunaður um græsku, þegar hann lét reisa orkuver við Grímsá og stöðva varð steypuvinnu vegna vatnsskorts.

Vel getur verið, að fjórða orkuverið á Austurlandi hafi alltaf nóg vatn, þótt hin þrjú hafi það ekki. Í sjálfu sér er forsagan aukaatriði, nema til að benda á, að pólitískir svæðishagsmunir hafa yfirleitt ráðið ferðinni.

Vísindamennirnir tveir telja Suðausturlínu langódýrustu og öruggustu lausn á orkuvanda Austfirðinga, svo og þá fljótvirkustu, því að lagning hennar tæki skemmri tíma en bygging orkuversins.

Þeir telja, að línan mundi leysa orkuvanda Skaftafellssýslna í leiðinni og auka að mun raforkuöryggi sunnanverðra Austfjarða. Þeir telja þar á ofan, að hún mundi auka orkuöryggi á Norðurlandi vegna hringtengingarinnar um allt land.

Þeir segja, að þriðja vélasamstæðan í orkuverinu við Hrauneyjafoss muni kosta fimm til sex milljarða og sjálf línan sjö til átta milljarða. Orkuver við Bessastaðaá er hins vegar talið mundu kosta nærri tvöfalt verð eða 23-24 milljarða.

Að stærð eru orkuver við Bessastaðaá og þriðja samstæðan við Hrauneyjafoss nokkurn veginn jafngild, með 60-70 megavött á hvorum stað. Viðbótin við Hrauneyjafoss er því ívið öflugri. Að öllu samanlögðu yrði rafmagnið þaðan mun ódýrara.

Rökin fyrir forgangi hringtengingar orkusvæða landsins eru ákaflega sterk. Slíkt kerfi flytur orku í báðar áttir og starfar, þótt línur slitni á einum stað. Það margfaldar orkuöryggi þjóðarinnar.

Að lokinni slíkri tengingu er svo skynsamlegt að dreifa orkuverum frá Tungnaár-Þjórsársvæðinu til að auka öryggi gagnvart margumtöluðum náttúruhamförum á því svæði. Og þá kæmi kannski Jökulsá á Fljótsdal alveg eins til greina og Bessastaðaá.

Dagblaðið birti síðastliðinn þriðjudag sjónarmið deiluaðila. Þar voru rök Bessastaðaársinna fremur léttvæg, enda tala vísindamennirnir tveir aðeins um að taka suðausturlínu fram fyrir, en ekki í staðinn fyrir orkuverið.

Margt bendir því til, að Hjörleifur Guttormsson Norðfjarðarráðherra sé í þann mund að efna til nýs orkuhneysklis, sem gefi Kröflu lítið eftir. Enda segja Kröflumenn nú, að skárra sé að leggja fé í hana en Bessastaðaá!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið