Hjálpsemi eða spilling

Greinar

Alþýðuflokksmenn deila um úrslit prófkjöra sinna. Telja sumir, að þar hafi aðstöðubrask ráðið úrslitum. Aðrir telja hins vegar slíkar fullyrðingar vera högg neðan beltis í innanflokksátökum.

Hæst ber í þessu efni deilu Vilmundar Gylfasonar og Björgvins Guðmundssonar á síðum Dagblaðsins. Hafa þeir sumpart fjallað um alþingisprófkjörið á Norðurlandi eystra, en aðallega þó um borgarstjórnarprófkjörið í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga ekki í hliðstæðum vanda. Þar var fyrir nokkrum árum ákveðið, að þingmennska og bankastjórn færi ekki saman. Urðu þá nokkrir menn að velja milli stóla á þingi og í banka.

Að baki þessarar ákvörðunar var hið heilbrigða sjónarmið, að maður, sem skammtar peninga úr banka með annarri hendi, eigi ekki að biðja um atkvæði með hinni. Skiptir þá engu, hvort um heiðvirðan mann er að ræða eða ekki, því að freistingarnar láta ekki að sér hæða.

Flokkarnir tveir stigu þó ekki skref sitt til fulls. Bankastjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins sitja enn á þingi fyrir þessa flokka. Þetta stafar sennilega af því, að stofnunin heitir ekki banki. En hún er sama skömmtunarstofan og hver annar banki.

Hið sama er að segja um skömmtunarstjóra innflutningsleyfa og gjaldeyris, Björgvin Guðmundsson sjálfan. Siðferðilega rétt væri, að hann veldi milli skömmtunarinnar og stjórnmálanna.

Í prófkjöri Alþýðuflokksins á Norðurlandi eystra bauð bankastjóri sig fram og hafði sigur. Í prófkjöri flokksins til borgarstjórnar í Reykjavík bauð annars konar skömmtunarstjóri sig fram og hafði sigur.

Enga afstöðu þarf að taka til þess, hvort þessir menn séu afbragð annarra manna eða ekki. Það var siðferðilega rangt af þeim að bjóða sig fram. Það var siðferðilega rangt af stuðningsmönnum þeirra að bjóða þá fram. Það var siðferðilega rangt af kjósendum í prófkjörunum að kjósa þá. Og það verður siðferðilega rangt af kjósendum að kjósa þá í væntanlegum kosningum.

Þetta vandamál er meira hér á landi en í flestum nágrannalöndunum. Efnahagskerfi okkar er formlegra og byggist allt of mikið á skömmtun. Það jafngildir gjöf að fá leyfi eða lán hér á landi. Eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Sumir fá, en aðrir ekki.

Þar við bætist, hversu nátengt skömmtunarkerfið er stjórnmálaflokkunum. Það eru engar dylgjur, þótt fullyrt sé, að þessi tengsli hafi verið og séu enn misnotuð á margvíslegan hátt. Fyrirgreiðsluspillingin er rótgróin hér á landi.

Björgvin segir í Dagblaðsgrein sinni, að stjórnmálamaður, sem greiðir götu samborgara sinna, sé aðeins að gera skyldu sína. Þetta lítur vel út á prenti. En mörkin milli hjálpsemi og spillingar í fyrirgreiðslum hljóta að vera ákaflega óljós.

Með því að rjúfa tengsl skömmtunar og stjórnmála er nokkuð dregið úr tækifærum til spillingar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið