Hinn nýi Gullfoss

Greinar

Íslendingar hafa lengi saknað Gullfossanna sinna, skipanna, sem héldu opnum glugga okkar gagnvart umheiminum, löngu áður en flugið sigraði sem eðlilegasti ferðamátinn yfir heimshöfin.

Gífurlegur halli var orðinn á rekstri hins síðasta Gullfoss, þegar Eimskipafélagið gafst upp á honum. Skipið var heldur ekki byggt fyrir nútíma þarfir á þessu sviði. Það var úrelt blanda vöru- og farþegaskipa, var illa búið til bílaflutninga og var of seint í ferðum.

Nú hafa orðið skyndileg umskipti á þessu sviði. Gullfoss-glugginn hefur verið opnaður og í þetta sinn alveg upp á gátt. Færeyskir athafnamenn hafa komið sér upp hraðskreiðri bílaferju, sem meðal annars verður notuð til Íslandssiglinga.

Ferjan kemur raunar í eðlilegu framhaldi af opnun Skeiðarársands fyrir almennri bílaumferð. Ferðafjölskyldur geta nú sett tjöld í bíla sína eða húsvagna aftan í, ekið sem leið liggur austur á firði og um borð í ferjuna. Síðan geta þær áð í Færeyjum og haldið svo áfram til Björgvinjar með sömu ferju eða til Esbjerg í Danmörku eða Leirvíkur á Bretlandaeyjum með annarri.

Ferjan bætir verulega aðstöðu fólks til að taka sig upp með sitt hafurtask og fara í langar könnunarferðir um Evrópu á eigin bíl og með ódýrum hætti, án stöðugra áninga á dýrum hótelum og veitingahúsum.

Verði ferða og bílaflutnings með ferjunni virðist vera í hóf stillt, þannig að í heild ætti Íslendingum nú að gefast kostur á ódýrum langferðum um Evrópu. Menn geta meira að segja tekið með sér mat að heiman og þar með vikið sér undan hinni ströngu gjaldeyrisskömmtun, sem nú ríkir hér á landi.

Frumkvæði hinna færeysku athafnamanna er lofsvert. Þeir hafa fyrir eigin reikning og áhættu framkvæmt það, sem pólitískir snakkarar í Norðurlandaráði hafa verið að ræða um að styrkja einhvern til að gera. Þær umræður hefðu samkvæmt fyrri reynslu tekið tíu-fimmtán ár. Einkaframtakið hefur rækilega slegið veizluskandinavismanum við.

Við sendum Færeyingum okkar beztu óskir um velgengni í ævintýri þeirra.

Jónas Kristjánsson

Vísir