Hinn kaldi friður

Greinar

“Við munum grafa ykkur”, sagði Krústjoff á sínum tíma um samskipti og samkeppni Sovétríkjanna og Vesturlanda. Var Krústjoff þó sá ráðamaður Sovétríkjanna, sem frjálslyndastur hefur verið, bæði í innanlandsmálum og í samskiptum við umheiminn.

Ummæli Krústjoffs hafa stundum verið tekin sem dæmi um, að friðartal ráðamanna Sovétríkjanna sé gersamlega marklaust. Samkvæmt hinum marxistísku kennslubókum er friðarhjal einmitt ein áhrifaríkasta tegund.stríðsrekstrar.

Hin svokallaða “hláka” í samskiptum austurs og vesturs er frá sjónarmiði ráðamanna Sovétríkjanna ekkert annað en aðferð til að slá ryki í augu Vesturlandabúa og gera þá meyra gagnvart síauknum pólitískum þrýstingi Sovétríkjanna. Núverandi ráðamenn Sovétríkjanna eru enn ákveðnari en Krústjoff í þessari stefnu, enda eru þeir meiri Stalínistar en hann var.

Ráðamönnum Sovétríkjanna er mikið í mun, að sem flestar og mestar hlákuráðstefnur séu haldnar. Á slíkum ráðstefnum er haft uppi mikið orðagjálfur um.frið og vináttu, en áþreifanlegur árangur er enginn annar en sá að gera Vesturlönd syfjuð á verðinum.

Hlákuráðstefnan í Helsinki er eitt bezta dæmið um sigra Sovétríkjanna á þessum sviðum. Nokkurn veginn er orðið ljóst, hvaða orðalag verður á samþykktum ráðstefnunnar, þegar henni lýkur um mánaðamótin. Allt er það Sovétríkjunum í vil, enda eru stjórnmálamenn Vesturlanda feimnir við að vera kallaðir menn kalda stríðsins.

Helsinkiráðstefnan viðurkennir óbeint landvinninga Sovétríkjanna á kostnað Póllands, Tékkóslóvakíu, Ungverjalands og Rúmeníu og innlimun Eistlands, Lettlands og Litáens. Það gerir hún með því að festa núverandi landamæri í Evrópu.

Helsinkiráðstefnan viðurkennir líka núverandi valdasvæði í Evrópu og styrkir aðstöðu Sovétríkjanna til að ráðast inn í leppríki sín, ef óþægð þeirra keyrir úr hófi fram. Ráðstefnan samþykkir óbeint, að innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu megi endurtaka sig.

Nú skyldu menn ætla, að Vesturlönd hefðu fengið eitthvað í staðinn fyrir þessa þjónustu við Sovétríkin. En svo er því miður ekki. Samþykktirnar um áhugamál Vesturlanda eru svo óljósar og þokukenndar, að ekkert gagn er að þeim.

Ekki hefur reynzt unnt að fá ráðamenn Sovétríkjanna til að fallast á virkt eftirlit með því, að samþykktir um takmörkun vígbúnaðar séu haldnar. Ekki hefur reynzt unnt að afla ferðafrelsis handa þrælum Austantjaldsríkjanna. Ekki hefur reynzt unnt að auðvelda sendingar prentaðs máls yfir járntjaldið. Og ekki hefur reynzt unnt að knýja Sovétríkin til að efla mannréttindi heima fyrir og í leppríkjunum.

Aðvaranir Solzhenitsyns rithöfundar hafa reynzt á rökum reistar. Í hlákunni eru ráðamenn Sovétríkjanna að spila með ráðamenn Vesturlanda og vagga þeim í svefn.

Ráðamenn Vesturlanda virðast ekki trúa því, sem stendur í fræðiritum marxismans, að pólitísk hláka sé aðeins tímabundin tegund stríðsrekstrar til að undirbúa jarðveginn fyrir endanlegt uppgjör stjórnmálakerfa austurs og vesturs

Jónas Kristjánsson

Vísir