Lífið gengur sinn vanalega gang í Vestmannaeyjum í dag, réttu ári eftir upphaf eldgossins í Heimaey. Rúmlega helmingur Eyjamanna hefur aftur tekið upp búsetu í Eyjum. Útgerðin og fiskiðjan eru alveg komnar heim. Og bráðum verður allt eins og ekkert hafi í skorizt.
Menn tala jafnvel um, að margt sé betra en áður var í Eyjum. Gnægð er af góðu efni í húsgrunna, vegi og jafnvel til útflutnings. Höfnin er mun stærri og betri en áður og hentar betur sem lífhöfn Suðurlands. Og menn eru jafnvel teknir að leiða hraunhitann með góðum árangri sem hitaveitu inn í hús.
Sætust er meðvitundin um unninn sigur í harðri baráttu við náttúruöflin. Þessi sigur hefur eflt sjálfstraust Eyjamanna og þjóðarinnar allrar, aukið áræði hennar, dugnað og bjartsýni. Mönnum finnst nú, að erfiðleikar séu til þess eins að sigrast á þeim. Í stað þess að gera greinarmun á erfiðu og ókleifu tala menn nú aðeins um, að verkefnin geti tekið mislangan tíma.
Vatnaskilin á þessu ferðalagi fólust í kælingu hraunsins með vatni. Það virtist fáránlegt að ætla að beina brunaslöngum gegn hraunstraumnum, sjálfu náttúruaflinu. En vísindamenn og athafnamenn létu hlátur ekki aftra sér og réðust ótrauðir í hið ókleifa. Og eftir langt varnarstríð tókst þeim að stöðva sigurgöngu hraunflaumsins.
Menn vissu raunar áður, að mannsandinn og mannshöndin geta rekið náttúruöflin af höndum sér og jafnvel beizlað þau. Við höfum byggt af okkur jarðskjálftana með traustum járnbindingum húsa. Við klæðum af okkur kuldann með hita úr iðrum jarðar og afli úr jökulvötnum hálendisins.
En samt virtist eldfjallalandið allt í einu vera byggilegra en áður. Ný sönnun var fengin, ný skírskotun til skyldleikans við Sæmund fróða á selnum. Þessi lífsreynsla mun verða okkur styrkur í erfiðleikum náinnar framtíðar.
Eitt ár er nú liðið frá hinni einstæðu björgun, er allir Eyjabúar fluttu til lands á einni nóttu og hófu nýtt líf, dreifðir um byggðir landsins. Á þessu eina ári gerðist gossagan og eftirleikur hennar. Viðlagasjóður var myndaður og bráðabirgðahús reist víða um land. Atvinnutæki og önnur verðmæti voru flutt frá Eyjum til lands og síðan aftur til baka. Gosefnin voru hreinsuð úr bænum og lagður grundvöllur að nýjum hverfum í stað hinna eyddu.
Þessi hringrás hefur ekki tekið heila öld, heldur aðeins eitt ár. Vestmannaeyingar minnast í dag upphafs gossins, ekki í útlegð, heldur heima í Eyjum. Þeir minnast þess með því að ganga til daglegra starfa um borð í fiskiskipum sínum, í fiskvinnslustöðvum, á verkstæðum, í verzlunum og þjónustufyrirtækjum. Með þeim hætti sést líka bezt, hve fullkominn sigurinn er.
Jónas Kristjánsson
Vísir