Afskiptasemi ríkisins hefur áratugum saman verið meiri í íslenzku atvinnulífi en hjá nágrannaþjóðum okkar. Hin föðurlega umsjá ríkisins hér á landi lýsir sér í mörgum atriðum. Mest áberandi eru tilraunir heimilisföðurins til að gera upp á milli barnanna, deila og drottna yfir atvinnuvegunum.
Hrikalegasti þáttur þessarar afskiptasemi er hin ranga gengisskráning, sem notuð hefur verið til að láta sjávarútveginn halda uppi öðrum atvinnurekstri í landinu. Ríkisvaldið skirrist jafnan við að lækka gengið til samræmis við innlendu verðbólguna, unz sjávarútvegurinn rambar á barmi gjaldþrots. Þá fyrst er gengið lagfært nægilega til þess, að sjávarútvegurinn skrimti. Þannig er rænt af sjávarútveginum þeim fjármunum, sem honum ber með réttu vegna þeirrar staðreyndar, að hann er mörgum sinnum framleiðnari en sjávarútvegur annarra þjóða.
Ríkið beitir einnig framleiðslustyrkjum til að halda uppi óarðbærum atvinnuvegum, svo og niðurgreiðslum til þess að gera óseljanlegar vörur þeirra seljanlegar. Þessar aðgerðir eru einkum í þágu landbúnaðarins. Ríkið veitir ennfremur undanþágu frá greiðslu söluskatts af sumum vörum. Tollar eru hafðir mismunandi háir til verndar innlendri framleiðslu og sumar vörur er beinlínis bannað að flytja inn. Iðnaðurinn nýtur tollverndarinnar, að vísu í síminnkandi mæli, og landbúnaðurinn nýtur söluskattsundanþágu og innflutningsbanns.
Verzluninni er haldið í skefjum með verðlagshöftum, sem valda óhagkvæmum innkaupum og óhóflegri gjaldeyriseyðslu. Verðákvarðanir eru einnig notaðar til að tryggja tekjur heilla atvinnugreina, einkum landbúnaðar. Þá eru jöfnunargjöld af ýmsu tagi farin að breiðast út til að láta veltuna á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu greiða niður veltu úti á landi.
Vaxtamismunun er beitt í ríkum mæli í þágu landbúnaðar og sjávarútvegs. Hinu takmarkaða fjármagni þjóðarinnar er ennfremur beint í ákveðna farvegi með því að eyrnamerkja það stofnfjársjóðum ákveðinna atvinnuvega, einkum landbúnaðar og sjávarútvegs. Loks er ríkisábyrgðum óspart beitt á takmörkuðum sviðum, einkum í sjávarútvegi.
Að öllu samanlögðu valda þau dæmi, sem hér hafa verið rakin, gífurlegri fjármagnstilfærslu í atvinnulífinu. Mesti forgangsatvinnuvegurinn er landbúnaðurinn, síðan kemur sjávarútvegurinn, þá iðnaðurinn og loks rekur verzlunin lestina.
Landbúnaðurinn nýtur framleiðslustyrkja, niðurgreiðslna, söluskattsundanþágu á sumum afurðum, innflutningsbanns, tekjutryggingar, jöfnunargjalda, vaxtamismununar og eyrnamerkingar fjármagns.
Sjávarútvegurinn nýtur vaxtamismununar, eyrnamerkingar fjármagns og ríkisábyrgða. Iðnaðurinn nýtur tollverndar, en síminnkandi tollverndar. Loks kemur svo verzlunin, sem nýtur engra þeirra vildarkjara, sem hér hafa verið rakin.
Þessar stórfelldu millifærslur, sem ríkisvaldið hefur áratugum saman staðið fyrir, hafa haldið aftur af hagþróun á Íslandi. Þær valda bví. að fjármagn nýtist verr í fjárfestingu hér á landi en hjá nágrannaþjóðum okkar. Þær valda því, að starfskraftar beinast ekki í nægilegum mæli að afkastamestu atvinnuvegunum. Þær eru myllusteinn um háls þjóðarinnar.
Jónas Kristjánsson
Vísir