“Hinir ætla að stjórna”

Greinar

“Hinir ætla að stjórna”, gætu verið einkunnarorð hinnar nauðaómerkilegu kosningabaráttu, sem háð er í blöðum stjórnmálaflokkanna þessa dagana. Að baki einkunnarorðanna er hugsunin: “Þið verðið að kjósa okkur, svo að hinir skilji okkur ekki eftir úti í kuldanum.”

Svo virðist sem enginn stjórnmálaflokkur hafi eigin verðleikum að hampa í kosningabaráttunni. Hins vegar séu gallar hinna flokkanna svo áberandi að hagkvæmast sé að fjalla sem mest um þá. Þetta staðfestir þá skoðun margra, að stjórnmálaflokkarnir hafi almennt staðið sig illa.

Þjóðviljinn leggur mikla áherzlu á, að núverandi helmingaskiptastjórn ætli að sitja áfram eftir kosningar. Vitnar blaðið jafnvel í óvarleg orð Geirs Hallgrímssonar því til staðfestingar. Þessi áróður hefur sálrænt gildi, því að engin ríkisstjórn hefur verið óvinsælli en þessi.

Morgunblaðið leggur mikla áherzlu á, að allir aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn ætli að sameinast um vinstristjórn eftir kosningar. Vitnar blaðið til tveggja þingmanna Alþýðubandalagsins og eins þingmanns Framsóknarflokksins því til staðfestingar. Einnig þessi áróður hefur sálrænt gildi, því að síðasta vinstristjórn var næstum eins óvinsæl og helmingaskiptastjórnin er.

Tíminn á við ramman reip að draga í þessari samkeppni. Blaðið verður að fara rúma þrjá áratugi aftur í tímann til að hræða menn á væntanlegri nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags og líklega Alþýðuflokks einnig. Þessi áróður hefur takmarkað sálrænt gildi, því að fáir muna nýsköpunarstjórnina og enn færri muna, hvort hún var góð eða vond.

Þessar deilur geta ekki talizt uppbyggilegar. En kjósendur geta þó nokkuð fræðzt af þeim um málefnastöðu stjórnmálaflokkanna, því að svona áróður reka þeir, sem finnst vera fokið í flest skjól hjá sér.

Morgunblaðið hefur þó tekið upp eitt kosningamál síðustu dagana. Það eru tillögur Sjálfstæðisflokksins um varanlega vegagerð um land allt á næstu árum. Gallinn er bara sá, að núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur nánast lagt slíka vegagerð niður.

Suma daga má ráða af Þjóðviljanum, að í landinu geisi borgarastyrjöld, þar sem ánauðugir launþegar séu að rísa gegn herforingjaklíku Suður-Ameríkuríkis. Er það raunar ekki í fyrsta sinn sem rithöfundar Þjóðviljans eru staðnir að því að lifa í eigin draumaheimi.

Kannski er þessi kosningabarátta fremur háð af skyldurækni en mætti. Kannski hugga ráðamenn flokkanna sig við, að hvort sem er sé lítil hjálp í áróðri flokksblaða og því sé sama hvernig hann er.

Einn áróðursmeistarinn sagði líka í blaði sínu eftir úrslit sveitarstjórnarkosninganna: “Eitt er það, sem ef til vill mun furða marga, hve lítil áhrif blaðaskrif flokksblaða virðast hafa haft á úrslitin.”

Svo má líka halda fram, að þessir menn telji, að lesendum, sem hirða um að kaupa áróður af þessu tagi á allt að 100 krónur skammtinn, henti ekki efnismeiri barátta en raun ber vitni um.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið